Þýska lögreglan handtók átta liðsmenn hægri öfgahóps sem hefur æft sig fyrir hrun ríkisins.
Hundruð lögreglumanna tóku þátt í 20 húsleitum tengdum hópnum sem kallar sig „saxneska aðskilnaðarsinna“.
Hópurinn er sagður hafa aðsetur í Austur-Þýskalandi, Póllandi og Austurríki.
Saksóknarar segja að aðgerðin beindist að „herskáum hópi sem samanstendur af 15 til 20 einstaklingum sem aðhyllast rasíska hugmyndafræði, gyðingahatur og telur að heimsendir sé nærri“.
Saksóknarar segja að liðsmenn hópsins séu að mestu ungir karlmenn sem hafna lýðræðisfyrirkomulagi Þýskalands og telja að ríkisstjórnin nálgist hrun á ótilgreindum „degi X“.
Fyrir þann dag hefur hópurinn undirbúið yfirráð í Saxlandi og öðrum svæðum í Austur-Þýskalandi.
Áætlun þeirra var að koma á fót stjórnskipan byggðri á þjóðernissósíalisma með það að markmiði að útrýma „óæskilegum hópi fólks með þjóðernishreinsunum“.
Hópurinn hefur stundað herþjálfun í bardagabúnaði með áherslu á „hernað í þéttbýli og meðhöndlun skotvopna“ auk þess að æfa marseringu og eftirlit.
Höfuðpaur hópsins hefur verið nefndur Joern S. og er 23 ára gamall. Hann var handtekinn í Póllandi. Aðrir voru handteknir í Leipzig og Dresden. Einnig voru gerðar húsleitir í Vín í Austurríki.
Saksóknarar telja að hópurinn hafi verið myndaður fyrir fjórum árum og hafi síðan þá undirbúið sig fyrir „ofbeldisfull stjórnarskipti“.
Mennirnir munu koma fram fyrir dómi í borginni Karlsruhe í dag og á morgun.