Hvenær vitum við úrslitin?

Kamala Harris og Donald Trump.
Kamala Harris og Donald Trump. AFP

Úrslit bandarísku forsetakosninganna eru talin munu ráðast í sjö af fimmtíu ríkjum landsins, svokölluðum sveifluríkjum þar sem brugðið gæti til beggja vona.

En hvenær verða niðurstöðurnar ljósar? 

Árið 2020 þá var það ekki fyrr en á laugardaginn eftir kjördag á þriðjudegi sem helstu fréttamiðlar vestanhafs treystu sér til að segja fyrir um úrslit kosninganna. Lýstu þeir þá Joe Biden sigurvegara.

Árið 2022 skýrðist ekki heldur fyrr en á laugardeginum hvor flokkurinn hefði meirihluta í öldungadeildinni. Þá liðu átta dagar frá kosningum og þar til skipting fulltrúadeildarinnar var komin á hreint.

Mismunandi í hverju ríki

Í ár þá veltur þetta á tveimur hlutum. Annars vegar hversu mjótt verður á munum í forsetakjörinu og svo hversu hratt ríki telja greidd atkvæði.

Hvert ríki hefur sinn háttinn á talningu atkvæðanna. Sum telja hratt vegna löggjafar sem gerir þeim kleift að hraða ferlinu, eða vegna fárra utankjörfundaratkvæða. Önnur telja hægt því slíka löggjöf skortir eða þá að fjöldi utankjörfundaratkvæða er slíkur að það tekur jafnvel nokkra daga að telja öll atkvæðin.

Hér fyrir neðan förum við yfir sveifluríkin sjö og hvenær úrslit í hverju og einu gætu skýrst að íslenskum tíma.

Frá kjörstað í Asheville í Norður-Karólínu.
Frá kjörstað í Asheville í Norður-Karólínu. AFP

Norður-Karólína: 16 kjörmenn

Kjörstaðir loka kl. 00.30 að íslenskum tíma.

Yfirvöld í ríkinu segja utankjörfundaratkvæði munu verða talin fyrst, en það er yfirleitt meirihluti atkvæða í ríkinu. Reiknað er með að greint verði frá talningu þeirra eftir að kjörstöðum er lokað og fram til klukkan 02.30.

Þá muni atkvæði greidd á kjördag bætast við á milli kl. 01.30 og 05.00 að íslenskum tíma.

Á þeim tímapunkti ættu um 98% atkvæða að vera orðin ljós. Talning í framhaldinu gæti svo teygst yfir næstu tíu daga, meðal annars vegna fellibylsins Helene sem reið þar yfir fyrir nokkrum vikum.

Fyrrverandi forsetinn Donald Trump er talinn eiga um 60% líkur á sigri hér.

Utankjörfundaratkvæði talin í Fulton-sýslu í Georgíu.
Utankjörfundaratkvæði talin í Fulton-sýslu í Georgíu. AFP

Georgía: 16 kjörmenn

Kjörstaðir loka á miðnætti.

Ný löggjöf hefur hraðað talningu til muna í Georgíu, sem kaus demókrata sem forseta í fyrsta skipti á þessari öld árið 2020.

Sýslum ríkisins er nú skylt að greina frá utankjörfundaratkvæðum, sem bárust fyrir kjördag, fyrir klukkan átta að kvöldi að staðartíma, eða klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma.

Þessi atkvæði ættu að vera meirihluti allra atkvæða í Georgíu. Í framhaldinu ættu atkvæði greidd á kjördag að verða talin á milli klukkan eitt og fimm í nótt.

Innanríkisráðherra Georgíu gerir ráð fyrir að búið verði að telja um 90% atkvæða klukkan 3.30 í nótt.

Hér eru sigurlíkur Trumps einnig taldar vera um 60%.

Talning atkvæða undirbúin í Philadelphiu í Pennsylvaníu.
Talning atkvæða undirbúin í Philadelphiu í Pennsylvaníu. AFP

Pennsylvanía: 19 kjörmenn

Kjörstaðir loka klukkan eitt eftir miðnætti í mikilvægasta sveifluríkinu, þar sem úrslitin þykja hvað tvísýnust.

Yfirvöld ríkisins hafa varað við því að niðurstöðurnar kunni ekki að verða ljósar í nótt.

Samkvæmt lögum í Pennsylvaníu má ekki meðhöndla utankjörfundaratkvæði fyrr en á kjördegi, en þegar hafist er handa við að telja þau þá má ekki gera neitt hlé á talningunni.

Talið er að flestar sýslur ættu að ná að telja atkvæði sín í nótt, en sumar af þeim stærri gætu þurft til þess miðvikudag og jafnvel fimmtudag.

Hér eru sigurlíkur beggja frambjóðenda, Trumps og varaforsetans Kamölu Harris, metnar 50%.

Kjósendur greiða atkvæði í Detroit í Michigan.
Kjósendur greiða atkvæði í Detroit í Michigan. AFP

Michigan: 15 kjörmenn

Kjörstaðir loka klukkan eitt eftir miðnætti í stórum hluta ríkisins, en klukkan tvö sums staðar.

Innanríkisráðherra Michigan hefur varað við að úrslitin gætu ekki skýrst að fullu fyrr en á morgun, miðvikudag, en þó fyrri hluta dags.

Í stærstu borginni, Detroit, er reiknað með að talningu verði lokið fyrir kl. 5 að íslenskum tíma.

Hér er Harris talin eiga um 60% líkur á sigri.

Atkvæði greidd í Oak Creek í Wisconsin.
Atkvæði greidd í Oak Creek í Wisconsin. AFP

Wisconsin: 10 kjörmenn

Kjörstaðir loka klukkan tvö eftir miðnætti að íslenskum tíma.

Fyrstu niðurstöður ættu að berast í kjölfarið og flest atkvæði hafa yfirleitt verið talin fyrir klukkan 6 að morgni hér á landi.

Utankjörfundaratkvæði gætu þó tafið fyrir talningunni en þau má ekki meðhöndla fyrr en á kjördegi í Wisconsin.

Harris er talin hafa um 60% líkur á sigri í ríkinu.

Starfsmaður kjörstjórnar athugar kjörseðil í Maricopa-sýslu í Arizona.
Starfsmaður kjörstjórnar athugar kjörseðil í Maricopa-sýslu í Arizona. AFP

Arizona: 11 kjörmenn

Kjörstaðir loka klukkan tvö eftir miðnætti.

Fyrstu niðurstöður eru svo yfirleitt birtar klukkan þrjú eftir miðnætti.

Í kjölfarið er búist við að sýslur ríkisins birti niðurstöður úr talningu utankjörfundaratkvæða sem bárust nokkrum dögum fyrir kjördag, en þau eru stór hluti greiddra atkvæða.

Í framhaldinu verða talin atkvæði greidd á kjördag og loks þau atkvæði sem bárust með pósti rétt fyrir kjördag eða á kjördag. Talning þeirra gæti tekið tíu til þrettán daga, en árið 2022 voru þessi atkvæði um 20% af heildarfjölda atkvæða.

Sigurlíkur Trumps eru metnar um 67% í Arizona.

Kjósendur nýta rétt sinn í Sunset-verslunarmiðstöðinni í Las Vegas í …
Kjósendur nýta rétt sinn í Sunset-verslunarmiðstöðinni í Las Vegas í Nevada. AFP

Nevada: 6 kjörmenn

Kjörstaðir loka klukkan þrjú eftir miðnætti hér á Íslandi.

Engar niðurstöður má birta fyrr en síðasta atkvæðið hefur verið greitt, sem árið 2022 var næstum þremur tímum eftir lokun kjörstaða.

Á þeim tímapunkti verður þó talning allra atkvæða fram að því gerð opinber. Líklega mun samt hægjast á talningunni í kjölfarið og nokkuð stór hluti atkvæða verður að líkindum ekki talinn í nótt.

Flestir í Nevada póstleggja atkvæði sitt og það mun taka einhverja daga að telja þau. Atkvæði geta til að mynda enn borist laugardaginn 9. nóvember og talist gild.

Sigurlíkur beggja eru hér metnar 50%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert