Einn reyndasti fjallgöngumaður Slóvakíu lést á leiðinni niður af tindi Langtang Lirung í Nepal, sem er í 7.234 metra hæð.
Fjallgöngusamband Slóvakíu greindi frá þessu í gær.
Ondrej Huserka og félagi hans Marek Holecek höfðu unnið það afrek að klífa austurhluta fjallsins fyrstir manna þegar Huserka féll ofan í sprungu á leiðinni niður.
Óskað var eftir því að björgunarþyrla yrði send á vettvang en hún gat ekki farið í loftið sökum veðurs.
Holecek, sem er tékkneskur, minntist fallins félaga síns í tilfinningaþrunginni færslu á Facebook. Þar kom fram að Huserka hefði fyrst fallið átta metra á klaka sem var ofan í sprungunni og síðan fallið enn lengra „ofan í hyldýpi jökulsins“.