Stuðningsmenn Donalds Trumps fögnuðu nýja Bandaríkjaforsetanum hátíðlega á samkomu í Flórídaríki í morgun eftir að hann hafði lýst yfir sigri í forsetakosningunum.
Hinn 68 ára Ted Sarvanis svaraði dansandi þegar AFP-fréttaveitan spurði hvernig tilfinningin væri. „Einstök,“ svaraði hann.
„Þetta er stærsti stjórnmálaatburður Bandaríkjamanna í sögu landsins,“ bætti hann við.
Blaðamaður AFP ræddi við Sarvanis er hann stóð nálægt sviðinu þar sem Trump hafði nýverið lýst yfir sigri í ræðu en þá var Fox News eina stóra sjónvarpsstöðin í landinu sem hafði lýst yfir sigri Trumps.
Trump sagði í ræðu sinni hafa unnið „pólitískan sigur sem landið okkar hefur aldrei séð áður“.
Stemningin var önnur á kosningavöku Kamölu Harris í Howard-háskólanum í Washington þar sem stuðningsmenn Demókrataflokksins þrömmuðu heim í myrkrinu í Washington eftir að kosningateymi Harris tilkynnti að varaforsetinn myndi ekki taka til máls á kosninganótt.
„Ég er hrædd, ég er kvíðin núna,“ sagði Charlyn Anderson við AFP-fréttastofuna fyrr um kvöldið. „Við gefumst ekki upp fyrr en það er búið en ég er hrædd.“
Á viðburði Trumps í Palm Beach mátti ýmist sjá karla í formlegum klæðnaði og konur í kjólum en einnig harðlínustuðningsmenn Trumps, meðal annars einn sem bar nafn stjórnmálahetju sinnar á leðurvesti.
Auk þess höfðu margir hinar frægu – eða alræmdu – rauðu MAGA-derhúfur á höfði.
„Mér finnst mér vera létt. Ég var svolítið hrædd, því maður vissi aldrei hvernig þetta færi,“ sagði hin 45 ára Stacy Kurtz við AFP.