„Fjármálaráðuneytið hefur sett sig í samband við skattgreiðandann og beðist velvirðingar,“ segir talskona þýska fjármálaráðuneytisins við AFP-fréttastofuna sem fjallar um mál manns sem fékk 1.700 bréf frá þýska skattstjóraembættinu samtímis – borin út til heimilis hans með póstinum í tíu kössum.
Raunar var um 1.700 eintök af sama bréfinu að ræða og lýsti staðardagblað í heimabæ mannsins, Quickborn, um 18 kílómetra norður af Hamborg, atvikinu sem tilvöldu sjónarspili í skáldsögu eftir Franz Kafka.
Kennir skatturinn tæknilegum mistökum um að manninum voru send 1.700 eintök af sama bréfinu og bauð honum þær sárabætur að bréfin yrðu sótt og þeim fargað honum að kostnaðarlausu. Það afþakkaði skattþegninn þó og kvað hreinan óþarfa, án þess að skýra málið nánar.
Skriffinnska hefur löngum reynst Þýskalandi, stærsta hagkerfi Evrópu, fjötur um fót og þykja margar þýskar ríkisstofnanir enn hálfmiðaldalegar þótt ríkisstjórn Olafs Scholz kanslara hafi lofað umbótum og aukinni netvæðingu stofnana sem enn styðjast við pappír í stórum hluta síns verkahrings – eins og efni þessarar fréttar dregur vel fram.
Við athugun mála árið 2021 kom í ljós að á þýska þinginu var enn að finna 1.600 faxtæki skömmu eftir að stjórnvöld höfðu lýst því yfir að til stæði að farga þeim.