Dómstóll í Sacramento í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur fallist á að hálfþrítug afgönsk kona skuli framseld sænskum lögregluyfirvöldum í hendur, grunuð um „töskudrápið“ svokallaða sem vakti þjóðarathygli í Svíþjóð á útmánuðum.
Í byrjun mars fannst lík 37 ára gamals karlmanns í tösku í skóglendi við veg númer 222 í Gustavsberg á eynni Värmdö sem tilheyrir eyjaklasanum úti fyrir sænsku höfuðborginni Stokkhólmi.
Bárust böndin fljótlega að konunni, sem bandaríska dagblaðið Sacramento Bee nafngreinir sem Wajihu Korashi, og manni hennar, Farid Vaziri, og var lýst eftir þeim á alþjóðavísu. Kom það upp úr kafinu að hinn myrti hefði verið elskhugi Korashi og leiddi rannsókn sænsku lögreglunnar í ljós að hún hefði reynt að verða sér úti um lyf sem valdið gætu meðvitundarleysi og falsað vegabréf skömmu áður en fórnarlambið hvarf sporlaust, en mannsins var saknað í fjóra daga áður en lík hans fannst í töskunni.
Það var svo 22. maí sem Korashi var loks handtekin, þá komin til Kaliforníu, en þangað hafði hún flúið gegnum Danmörku, Þýskaland og Mexíkó. Var systir hennar handtekin við sama tækifæri þar sem hún var án landvistarleyfis í Bandaríkjunum, en áður hafði lögregla þar haft hendur í hári bróður hennar vegna málsins. Vaziri er hins vegar enn eftirlýstur og ekkert vitað um hvar hann er niður kominn. Bæði eru þau hjónin grunuð um manndráp og vanvirðandi meðferð líks.
„Þegar konan kemur til Svíþjóðar gefst henni færi á að hitta lögmann sinn og í kjölfarið verður hún yfirheyrð,“ segir saksóknarinn í málinu, Cecilia Tepper og bætir því við að hún hafi reiknað með að bandarísk yfirvöld féllust á framsal Korashi. Þar sem hún hafi ekki kært framsalsúrskurðinn geti ákæruvaldið nú hafið málatilbúnað sinn. Auk hennar situr 19 ára gamall bróðir Vaziri, eiginmannsins, í gæsluvarðhaldi í Svíþjóð þar sem hann var handtekinn og er grunaður um aðild að málinu.
Verjandi Korashi í Kaliforníu kveður engin sönnunargögn tengja hana við drápið í vor, eftir því sem Sacramento Bee greinir frá. Segir blaðið enn fremur að konan afgangska hafi komið frá heimalandi sínu til Svíþjóðar sem flóttamaður árið 2020.
Bandarísk lög krefjast þess hins vegar ekki að bein sönnunargögn liggi fyrir í sakamálum svo framselja megi grunaða sakamenn, þar nægir að sænsk yfirvöld hafi í höndunum málsgögn sem nægi til að handtaka grunaðan brotamann.
Enn er ekki ljóst hvenær Korashi verður send til Svíþjóðar, skrifar Sacramento Bee, og hafa bandarísk yfirvöld ekkert látið uppi um afdrif tveggja ungra barna hennar.
SVT-II (handtakan í Kaliforníu)