Hafa handsamað fjölda rússneskra hermanna

Götumynd frá Kúrsk tekin í október. Úkraínumenn réðust inn í …
Götumynd frá Kúrsk tekin í október. Úkraínumenn réðust inn í þetta rússneska hérað í ágúst og komu Rússum þar með í opna skjöldu. AFP/Andrey Borodulin

Úkraínskar hersveitir hafa tekið rúmlega 700 rússneska hermenn höndum síðan þær réðust inn í Kúrskhéraðið rússneska í ágúst. Frá þessu greina stjórnvöld í Kænugarði í dag.

Að sögn Oleksandr Syrsky, yfirmanns úkraínska heraflans í Kúrsk, hafa hans menn alls handtekið 717 rússneska hermenn í héraðinu, en sókn Úkraínumanna þangað í ágústbyrjun kom Rússum í opna skjöldu. Lét Volódimír Selenskí Úkraínuforseti þau orð falla á sínum tíma að tilgangur innrásarinnar væri að handsama fleiri rússneska stríðsfanga svo hafa mætti skipti á þeim og úkraínskum hermönnum í fangelsum rússneska hersins.

Norðurkóreskir hermenn í Kúrsk

Hafa nágrannaríkin oftsinnis skipst á stríðsföngum þau tæpu þrjú ár sem innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur nú staðið.

Heyrist því nú fleygt á lýðnetinu, hvort tveggja frá almenningi og hernaðarlegum yfirmönnum rússneskum að rússneskum hersveitum hafi orðið nokkuð ágengt við að hrekja sókn Úkraínumanna inn í Kúrsk.

Stjórnvöld í Kænugarði greindu enn fremur frá því að úkraínskir hermenn hefðu nú fyrsta sinni átt í skærum við norðurkóreska hermenn sem staddir væru í Kúrsk en ekki er langt síðan fréttir voru fluttar af því að þúsundir hermanna frá Norður-Kóreu væru komnir til Rússlands og gengjust þar undir þjálfun með það fyrir augum að verða Rússum liðsauki á vígvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka