Kannanir nákvæmari en fyrir fjórum árum

Trump ásamt konu sinni Melaniu Trump í morgun.
Trump ásamt konu sinni Melaniu Trump í morgun. AFP/Jim Watson

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, var örlítið vanmetinn í skoðanakönnunum fyrir kosningarnar en þær reyndust vera talsvert nákvæmari en fyrir fjórum árum. 

Þetta segir Hafsteinn Birgir Einarsson, nýdoktor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

„Þær [skoðanakannanir] eru umtalsvert betri en þær voru fyrir fjórum árum. Skoðanakannanir geta aldrei spáð nákvæmlega um kosningaúrslitin,“ segir Hafsteinn og telur að skoðanakönnunarfyrirtækin þurfi ekki að fara í gagngera endurskoðun eins og eftir síðustu kosningar. 

Vanmetinn í tvígang

Í kosningunum 2016 og 2020 var fylgi Trumps vanmetið í skoðanakönnunum. Árið 2016 var Hillary Clinton spáð öruggum sigri en daginn fyrir kosningar spáði FiveThirtyEight að 71.4% líkur væru á því að Clinton tæki sigurinn, en svo var ekki og bar Trump sigur úr býtum. 

Hafsteinn Einarsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Hafsteinn Einarsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild HÍ. Ljósmynd/Aðsend

Svipaða sögu má segja af kosningunum 2020 en þá var talið að Joe Biden ætti öruggan sigur fyrir stafni en talsvert minna var á milli þeirra en skoðanakannanir höfðu spáð um.

Hafsteinn segir að það sé alltaf erfitt að spá fyrir um hvaða hópur mætir á kjörstað en að Trump hafi sérstaklega gott lag á því að fá óvirka kjósendur til þess að mæta á kjörstað til þess að kjósa hann. 

Jók fylgi sitt meðal minnihlutahópa

Trump bætti talsvert við fylgi sitt frá síðustu kosningum en hann jók fylgi sitt á meðal minnihlutahópa talsvert og þá sérstaklega á meðal kjósenda af rómönskum uppruna (e. latino). 

Hafsteinn rekur þessa fylgisaukningu til verðbólgutíma og að erfitt sé fyrir sitjandi stjórnvöld að hljóta endurkjör þegar efnahagsástandið hefur verið erfitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert