Kínverjar búa sig undir Trump

Bandarískt kosningasjónvarp á bar í Sjanghæ í Kína í morgun …
Bandarískt kosningasjónvarp á bar í Sjanghæ í Kína í morgun að íslenskum tíma. AFP

Kínversk stjórnvöld búa sig nú undir að Donald Trump taki sér bólfestu í Hvíta húsinu næstu fjögur árin og hafa vaðið fyrir neðan sig með því að lýsa yfir von sinni um „friðsamlega samveru“ með Bandaríkjunum.

„Við munum áfram byggja samskipti Kína og Bandaríkjanna á gagnkvæmri virðingu, friðsamlegri samveru og samskiptum sem verða báðum ríkjunum til framdráttar,“ sagði Mao Ning, sem hafði orð fyrir kínverska utanríkisráðuneytinu, á blaðamannafundi í morgun.

Bætti hún því við að stefna Kína í Bandaríkjamálum hefði verið stöðug en AFP-fréttastofan teflir því sérstaklega fram að Mao hafi ekki nefnt Trump einu orði í yfirlýsingu ráðuneytisins, hins vegar hafi hún látið þau orð falla að forsetakosningar í Bandaríkjunum væru innanríkismál Bandaríkjanna.

„Hættu að skipta þér af öðrum löndum“

„Við virðum val amerískrar þjóðar,“ sagði Mao og spurð hvort Xi Jinping Kínaforseti kæmi til með að hringja í Trump með árnaðaróskir kvað hún kínversk stjórnvöld mundu viðhafa hefðbundna háttsemi í kjölfar þess er sigurvegari kosninganna yrði tilkynntur.

Kínverjar spöruðu ekki kosningaumræðuna á samfélagsmiðli sínum Weibo sem nefndur hefur verið hið kínverska X og mátti þar lesa ýmsan boðskap, svo sem: „Til hamingju Trump! Einbeittu þér nú að því að byggja upp þitt fallega land og hættu að skipta þér af öðrum löndum.“

Augu heimsins hvíla um þessar mundir á Bandaríkjunum. Útsending afgönsku …
Augu heimsins hvíla um þessar mundir á Bandaríkjunum. Útsending afgönsku sjónvarpsstöðvarinnar Tolo á veitingastað í höfuðborginni Kabúl í morgun að íslenskum tíma. AFP/Wakil Kohsar

Gildir þó líkast til einu fyrir Kínverja hvernig kosningarnar fara að lokum, báðir frambjóðendurnir, Kamala Harris og Donald Trump, höfðu í ræðum sínum uppi loforð um að sauma að Kínverjum. Lofaði Trump þar 60 prósenta tollum á allar kínverskar vörur er að bandarískum landamærum kæmu.

„Fjölskylda mín starfar við alþjóðaviðskipti og veröld hennar hrundi í þessu til grunna,“ skrifar ritari á samfélagsmiðlinum Douyin og uppsker ríkulega af þumalfingrum upp á við fyrir yfirlýsingu sína.

Þegar fréttamenn AFP ræddu við vegfarendur á götu í Peking í morgun kváðust margir viðmælendur kæra sig kollótta um úrslit kosninganna, amerísk stjórnmál kæmu þeim ekki við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert