Pence óskar Trump til hamingju

Fyrrverandi samstarfsfélagarnir hafa eldað grátt silfur saman um nokkurt skeið.
Fyrrverandi samstarfsfélagarnir hafa eldað grátt silfur saman um nokkurt skeið. AFP/Jim Watson

Fyrrverandi varaforseti Donalds Trumps, Mike Pence, hefur óskað Trump og nýja varaforseta hans, J.D. Vance, til hamingju með sigur þeirra í forsetakosningunum.

Kemur það eflaust mörgum á óvart í ljósi þess að Trump lýsti yfir stuðningi við að óeirðaseggir, sem gerðu atlögu að þinghúsi Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021, myndu hengja Pence.

Hafa fyrrverandi samstarfsfélagarnir ekki borið hvor öðrum góða söguna síðan.

Þjóðin talað og biður fyrir Trump

„Bandaríska þjóðin hefur talað og við Karen sendum okkar bestu kveðjur til Donalds Trumps sem var kjörinn 47. forseti Bandaríkjanna,“ skrifaði Pence á X.

„Við óskum einnig nýkjörnum þingmönnum repúblikanameirihluta í öldungadeild og fulltrúadeild Bandaríkjanna til hamingju og hlökkum til að sjá viðleitni þeirra til að endurvekja öryggi, farsæld og virðingu fyrir lífi í Bandaríkjunum.“

Kvaðst Pence ásamt konu sinni halda áfram að biðja fyrir öllum þeim sem við völdin sitja og biðlaði til þjóðarinnar að gera slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert