Selenskí óskaði Trump til hamingju

Volodimír Selenskí.
Volodimír Selenskí. AFP/Nhac Nguyen

Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa óskað Donald Trump til hamingju með sigurinn í bandarísku forsetakosningunum, þar á meðal Volodimír Selenskí Úkraínuforseti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.

Selenskí sagðist vona að sigur Trumps yrði til þess að færa  „réttmætan frið nær í Úkraínu“. 

„Ég kann að meta viðhorf Trumps til nálgunarinnar „friður í gegnum styrk“ í alþjóðamálum. Þetta er nákvæmlega það sem getur fært réttmætan frið nær Úkraínu,” sagði Selenskí.

Mesta endurkoma sögunnar

„Til hamingju með mestu endurkomu sögunnar!“ sagði Netanjahú og bætti við að um nýtt upphaf væri að ræða fyrir Bandaríkin og sigurinn væri magnaður.

Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. AFP/Ludovic Marin

Macron sagðist vera tilbúinn til að starfa með Trump „af virðingu og með metnað í huga“ líkt og „okkur tókst að gera í fjögur ár“.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, óskaði Trump til hamingju með „sögulegan kosningasigur” og bætti við að sérstakt samband Bretlands og Bandaríkjanna  myndi „halda áfram að blómstra”.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, óskaði Trump einnig til hamingju og sagði að þjóðirnar ættu eftir að mynda „sterkt samband yfir Atlantshafið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert