Vilja að Trump endi stríðið

„Við höfum þurft að flýja, það er verið að drepa …
„Við höfum þurft að flýja, það er verið að drepa okkur [...] það er ekkert eftir fyrir okkur, við viljum frið,“ sagði íbúi á Gasasvæðinu. AFP

Palestínumenn á Gasasvæðinu biðla til Donalds Trumps nýkjörins Bandaríkjaforseta að enda stríðsátök á svæðinu milli Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna.

Árásir Ísraelsmanna undanfarið ár hafa kostað tugi þúsunda Palestínumanna lífið, hrakið 90 prósent þjóðarinnar á flótta, valdið hungri, veikindum og lamað starfsemi heilbrigðisstofnana.

Bandaríkin eru helsti pólitíski og hernaðarlegi bakhjarl Ísraels og hefur stuðningur ríkisstjórnar Joes Bidens ekki hvikað þrátt fyrir að hvatningar hans um að koma á vopnahléi hafi ekki átt upp á pallborð Ísraelsmanna.

Hafa sumir Palestínumenn aftur á móti bundið vonir við að Trump muni beita sér fyrir friði á svæðinu en forsetinn hefur sagst getað bundið endi á stríðsátök með einu símtali.

90 prósent þjóðarinnar hafa verið hrakin af heimilum sínum.
90 prósent þjóðarinnar hafa verið hrakin af heimilum sínum. AFP

Gasa verði nýja Mónakó

Á fyrra kjörtímabili sínu flutti Trump sendiráð Bandaríkjanna til Jerúsalem og viðurkenndi Gólanhæðir sem hluta af Ísrael en þær voru hernumdar af Ísraelum í sex daga stríðinu árið 1967. Auk þess kom Trump á Abraham-samkomulaginu til að koma á betri tengslum milli Ísraels og nokkurra Arabaríkja.

Í kosningabaráttu sinni í ár sagði Trump að Gasasvæðið gæti orðið úrvalsstaður, jafnvel betra en Mónakó, ef vel væri staðið að uppbyggingu þess enda væri það á „besta stað, með besta vatnið og bestu strendurnar“.

Kvaðst hann hafa brugðist við á nákvæmlega sama hátt og Ísraelar gerðu í kjölfar árásar Hamas og hvatti Ísraelsher til að „klára verkið“. Minnst 43 þúsund manns hafa látist í árásum Ísraels frá því í október á síðasta ári.

Þurfum einhvern sterkan eins og Trump

„Við höfum þurft að flýja, það er verið að drepa okkur [...] það er ekkert eftir fyrir okkur, við viljum frið,“ sagði Mamdouh al-Jadba, íbúi á Gasasvæðinu sem er einn þeirra sem flýja en hann hefur margsinnis þurft að flýja heimili sitt eða athvörf.

„Ég vona að Trump finni lausn, við þurfum einhvern sterkan eins og Trump til að enda stríðið og bjarga okkur. Þetta er nóg, Guð, þetta er nóg,“ sagði maðurinn í samtali við blaðamann AFP-fréttastofunnar.

„Ég hef þurft að flýja þrisvar sinnum, húsið mitt var jafnað við jörðu, börnin mín eru heimilislaus í suðurhluta Gasa [...] það er ekkert eftir. Gasa er búið.“

Trump hefur sagt að Gasasvæðið gæti orðið betra en Mónakó.
Trump hefur sagt að Gasasvæðið gæti orðið betra en Mónakó. AFP

Allir forsetar Bandaríkjanna hlynntir Ísrael

Palestínumenn á Vesturbakkanum sem fréttastofan ræddi einnig við voru minna bjartsýnir á afleiðingar kjörs Trumps fyrir Palestínu. Kváðust þeir ekki sjá ástæðu til að þess að sigur Trumps yrði Palestínumönnum í hag og teldu frekar að stuðningur við palestínska málstaðinn færi versnandi fyrir vikið.

„Trump er ákveðinn hvað varðar sumar ákvarðanir en þær ákvarðanir eru Ísrael meira í hag en málefni Palestínumanna,“ sagði Samir Abu Jundi.

„Allir forsetar Bandaríkjanna hafa verið hlynntir Ísrael,“ sagði annar maður sem ekki vildi láta nafns síns getið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert