Fimm ára fangelsisdómur yfir einum yngsta pólitíska fanga Rússlands hefur verið staðfestur eftir að áfrýjunardómstóll í Rússlandi staðfesti dóm yfir unglingnum.
Arseny Turbin var einungis 15 ára þegar hann var handtekinn í fyrrasumar.
Yfirvöld sökuðu hann um að hafa gengið til liðs við frelsishreyfingu í Rússlandi sem samanstendur af vopnaðri herdeild manna sem barist hefur við hlið Úkraínumanna gegn innrás Rússa.
Herdeildin er skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Rússlandi.
Turbin er eitt níu ungmenna sem sökuð hafa verið um að tilheyra pólitískum samtökum sem ekki eru stjórnvöldum hliðholl.
Sjálfur hefur hann haldið fram sakleysi sínu. Hann viðurkennir að hafa rannsakað samtökin en segist ekki hafa haft nein samskipti við þau. Irina móðir hans tók í sama streng og segir ekkert bendla son sinn við samtökin með beinum hætti.
Rannsakendur í málinu sögðu Turbin einnig hafa dreift blöðungum með gagnrýnum skilaboðum á störf Vladimir Putíns Rússlandsforseta.
Turbin viðurkenndi það en segist ekki hafa verið handbendi neins heldur staðið sjálfur að framtakinu. Þá hefur Turbin einnig viðurkennt að hafa gagnrýnt Pútin á opinskáan hátt í skólanum. Eins að hafa verið sýnilegur í gagnrýni sinni á stríðsrekstur Rússa á samfélagsmiðlum auk þess að hafa opinberlega stutt Alexei Navalny, pólitískan andstæðing Pútíns, sem lést í fangelsi í febrúar.
Upphaf aðgerða lögreglu sneru að því þegar gerð var húsleit á heimili Turbins í smábænum Livny sem er í um 450 kílómetra fjarlægð frá Moskvu.
Gerði hún raftæki hans upptæk og yfirheyrði hann svo daginn eftir. Var hann án lögfræðings við yfirheyrsluna.
Nokkrir skólafélagar Turbins voru yfirheyrðir og spurðir um tengsl hans við herdeildina en eftir því sem BBC kemst næst tjáði enginn sig um þau.