Joe Biden Bandaríkjaforseti mun flytja ávarp til bandarísku þjóðarinnar við Hvíta húsið seinnipartinn í dag. Þar mun hann heita því að völdin flytjist á friðsamlegan hátt yfir til Donalds Trump eftir að hann vann Kamölu Harris örugglega í forstakosningunum í gær.
Reiknað er með því að ræðan, sem verður haldin klukkan 16 að íslenskum tíma, verði bæði erfið og vandræðaleg fyrir Biden í ljósi ósigurs Harris.
Biden, sem er 81 árs, hrökklaðist út úr kapphlaupinu um að halda áfram sem forseti í júlí síðastliðnum og tók þá Harris við kyndlinum af honum sem frambjóðandi demókrata. Núna er líklegt að arfleifð hans verði sundrað við endurkomu Trumps í embætti forseta.
Biden virðist þó staðráðinn í því að gera ekki það sama og Trump, sem neitaði að viðurkenna ósigur sinn í forsetakosningum gegn Biden árið 2020. Í kjölfarið gerðu stuðningsmenn Trumps ofbeldisfulla árás á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021.
Trump, sem hélt því ranglega fram að brögð hefðu verið í tafli í kosningunum, neitaði einnig að vera viðstaddur innvígslu Bidens í embætti forseta og leyfði ekki hefðbundinn flutning hans í embættið.
Hvíta húsið sagði að Biden hefði rætt við Trump í gær og „lýst yfir vilja hans til að tryggja auðveldan flutning og lagði áherslu á mikilvægi þess að sameina þjóðina“.
Biden bauð Trump jafnframt í heimsókn í Hvíta húsið þar sem þeir munu funda, þrátt fyrir langvarandi óvild á milli þeirra. Talsmaður Trumps sagði hann hlakka til fundarins sem muni eiga sér stað fljótlega.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Biden og Trump hittast eftir afleita frammistöðu forsetans í kappræðum gegn Trump í júní sem urðu til þess að hann hrökklaðist í burtu sem frambjóðandi Demókrataflokksins.