Nepalskir björgunarsveitarmenn fundu í morgun lík reynds fjallgöngumanns frá Slóvakíu sem fórst í síðustu viku eftir að hafa klifið fjallið Langtang Lirung.
Fjallið, sem er 7.234 metra hátt, er í Himalajafjöllunum.
Ondrej Huserka féll ofan í sprungu síðastliðinn fimmtudag eftir að hafa unnið það afrek að klífa austurhlið fjallsins fyrstur manna ásamt félaga sínum.
Vegna veðurs var ekki hægt að leita að líki Huserka eftir slysið.
Að sögn Subin Thakuri, sem aðstoðaði við skipulagningu fjallgöngunnar, tókst að finna svæðið þar sem Huserka féll niður og draga lík hans þaðan upp.