Samfélagsmiðlar verði bannaðir yngri en 16 ára

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, í gær.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, í gær. AFP/Tracey Nearmy

Forsætisráðherra Ástralíu hefur heitið því að banna börnum yngri en 16 ára að nota samfélagsmiðla. Hann segir þá „valda börnunum okkar alvöru skaða”.

Tæknirisar, sem stjórna samfélagsmiðlum á borð við Facebook og TikTok, yrðu látnir bera ábyrgð á því að framfylgja þessum aldurstakmörkunum og ættu ellegar yfir höfði sér þunga sekt.

Tvær konur skoða símana sína í borginni Sydney.
Tvær konur skoða símana sína í borginni Sydney. AFP/David Gray

Ef þetta verður að veruleika verða þetta á meðal ströngustu ráðstafana sem hafa verið gerðar í heiminum þegar kemur að börnum og samfélagsmiðlum.

Fyrir foreldrana

„Þetta er fyrir mömmurnar og pabbana. Samfélagsmiðlar eru að valda börnunum okkar alvöru skaða og ég segi hingað og ekki lengra,“ sagði Albanese við blaðamenn fyrir utan ástralska þinghúsið.

Til stendur að kynna lögin fyrir leiðtogum í þessari viku og eftir það verða þau lögð fram á þinginu seint í þessum mánuði.

Ef þau verða samþykkt fá tæknirisarnir eins árs frest til að finna út hvernig skal framfylgja þeim.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert