Að minnsta kosti 25 manns særðust í flugskeytaárás Rússa á íbúðablokk í borginni Karkív.
Borgarstjóri þessarar næststærstu borgar Úkraínu greindi frá þessu.
Sprengja lenti á 12 hæða byggingunni og eyðilögðust að hluta til fyrsta og þriðja hæð hennar, skrifaði borgarstjórinn Igor Terekhov á Telegram.
„Fjöldi þeirra sem særðust heldur áfram að aukast. Núna eru þeir 25 talsins,“ bætti hann við. Björgunaraðgerðir standa yfir til að bjarga fólki sem er fast á þriðju hæð blokkarinnar.
Andriy Yermak, starfsmannastjóri Úkraínuforseta, sagði Rússa hafa „vísvitandi skotið á íbúðablokk“.
„Rússar eru einnig að ráðast á Kænugarð með flugskeytum,“ bætti hann við.