Fimm hafa verið fluttir á sjúkrahús og 62 handteknir eftir átök sem brutust út í Amsterdam eftir fótboltaleik ísraelska liðsins Maccabi Tel-Aviv og Ajax í gærkvöldi.
„Þó nokkrar fréttir um atburði gærkvöldsins í Amsterdam hafa verið í umferð á samfélagsmiðlum,“ sagði lögreglan í Amsterdam í færslu á X.
„Fram að þessu er vitað að fimm hafa verið fluttir á sjúkrahús og 62 einstaklingar hafa verið handteknir.“
Dick Schoof, forsætisráðherra Hollands, og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hafa báðir fordæmt árásir sem voru gerðar á ísraelska stuðningsmenn.
„Ég fylgdist með hryllingi á umfjöllun um það sem gerðist í Amsterdam. Algjörlega óásættanlegar árásir á Ísraela,“ skrifaði Schoof á X og bætti við að hann hefði rætt við Netanjahú til að fullvissa hann um að „gerendurnir verða eltir uppi og sóttir til saka“.