Meirihluti þýskra kjósenda vill kosningar strax

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hyggst starfa í minnihlutastjórn fram á …
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hyggst starfa í minnihlutastjórn fram á næsta ár. AFP/Gergely Besenyei

Um tveir þriðju þýskra kjósenda vilja að kosið verði eins fljótt og auðið er eftir að ríkisstjórnin þar í landi sprakk í vikunni, ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem birt var í dag. AFP-fréttastofan greinir frá.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur sagt að hann muni leitast við að endurnýja umboð sitt með atkvæðagreiðslu í þinginu í janúar en boða til snemmbúinna kosninga takist það ekki. Hann hyggst starfa í minnihlutastjórn þangað til.

Það hugnast stjórnarandstæðingum ekki og vilja þeir að greidd verði atkvæði um vantrauststillögu á Scholz í næstu viku. Kjósendur virðast vera á sama máli, líkt og niðurstöður könnunarinnar benda til.

Samstarfi slitið eftir brottrekstur ráðherra

65 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni vildu að kosið yrði strax, en 33 prósent töldu að leið Scholz væri skynsamlegri.

Frjálslyndir demó­krat­ar slitu stjórn­ar­sam­starf­inu eft­ir að Scholz rak Christian Lindner fjár­málaráðherra úr embætti en hann taldi að ekki væri leng­ur traust á milli þeirra og því gætu þeir ómögulega unnið saman.

Joerg Kukies, flokksfélagi Scholz og ná­inn sam­starfsmaður hans, verður skipaður nýr fjár­málaráðherra lands­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert