Sameinuðu þjóðirnar segjast vera þungt hugsi yfir ofbeldisverkum í Amsterdam í kringum fótboltaleik Ajax og ísraelska liðsins Maccabi Tel-Aviv.
Forsætisráðherrar Ísraels og Hollands segja að ráðist hafi verið á stuðningsmenn Maccabi vegna gyðingaandúðar.
„Við höfum séð þessar fregnir sem valda okkur miklum áhyggjum,“ sagði Jeremy Laurence, talsmaður mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
„Enginn, enginn á að vera beittur misrétti eða ofbeldi vegna þjóðernis síns, trúarbragða, kynþáttar eða einhvers annars. Við höfum heyrt að yfirvöld ætli að hefja rannsókn á þessu atviki,“ bætti hann við.
Embættismenn í Amsterdam höfðu þetta að segja um það sem gerðist:
„Á þó nokkrum stöðum í borginni var ráðist á stuðningsmenn, þeir beittir ofbeldi og skotið á þá með flugeldum. Óeirðalögreglan varð að grípa inn í þó nokkrum sinnum, vernda stuðningsmenn Ísraela og fylgja þeim á hótel.“
Þegar stuðningsmenn beggja liða söfnuðust saman fyrir leikinn í gærkvöldi sagðist lögreglan vera á varðbergi og fylgjast með atvikum, þar á meðal þegar palestínskir fánar voru rifnir niður af byggingu.