Um 1.500 rússneskir hermenn hafa látist eða særst hvern dag októbermánaðar í Úkraínu og hefur mannfallið aldrei verið meira síðan að innrás Rússa inn í landið hófst í febrúar 2022.
Í samtali við breska ríkisútvarpið segir yfirmaður varnarliðs Bretlands, Tony Radakan, að tala látinna eða særðra rússneskra hermanna nálgist nú 700.000 og að því fylgi mikill sársauki sem rússneska þjóðin þurfi að bera vegna metnaðar Vladímirs Pútíns Rússlandsforseta.
Þá sagði hann einnig að mannfallið væri mikið fyrir Rússa miðað við þau örlitlu landsvæði sem herinn hefur náð að taka yfir síðan innrás þeirra hófst.
Lét hann einnig hafa eftir sér að ríkið væri að eyða meira en 40% opinberra útgjalda í öryggis- og varnarmál sem væri mjög íþyngjandi fyrir Rússa.
Bretland hefur verið helsti bakhjarl Úkraínu í stríðinu og til að mynda veitt Kænugarði milljarða punda heraðstoð auk vopna og herþjálfunar.
Þá hefur Keir Stermer, forsætisráðherra landsins, ítrekað stuðning þess við Úkraínu eftir að Donald Trump hlaut sigur í forsetakosningum Bandaríkjanna. Áhyggjur hafa myndast um framtíðarskuldbindingar vestrænna ríkja við Úkraínu í kjölfar þess sigurs.
Sagði Radakin í viðtali sínu að Bretland myndi halda áfram að styðja Úkraínu þar til stríðinu lyki og að það væru skilaboð sem Pútín þyrfti að meðtaka.