Pútín reynir að stækka vinahringinn

Frá ráðstefnunni í Sochi.
Frá ráðstefnunni í Sochi. Ljósmynd/AFP

Rússar hyggjast reyna að efla tengsl við Afríkuþjóðir í ljósi einangrunar á alþjóðasviðinu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.

Um helgina fer fram ráðstefna í Sochi í Rússlandi þar sem saman eru komnir fulltrúar ýmissa Afríkuþjóða.

Fram kom í ræðu Andreij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sem ávarpaði gesti fyrir hönd Pútíns að Rússar lofi fjárstuðningi til innviðauppbyggingar í heimsálfunni.

Ráðstefnan er sögð áfangi í tilraun Rússa til að útvíkka heimssýn þeirra um brotakenndan heim þar sem ólíkir pólar takast á, fremur en að stórar blokkir hafi sameiginlega hagsmuni.

Vesturlönd séu óvinurinn 

Vonast Rússar til þess að Afríkuþjóðir taki undir með þeirra sjónarmiðum um að Vesturveldin séu óvinurinn. Sovétríkin sálugu höfðu rík ítök í Afríku og hafa Rússar fært sig upp á skaftið í þeim efnum undanfarin ár. Níger, Malí og Búrkína Fasó eru þjóðir sem snúið hafa baki við fyrrverandi nýlenduherrunum Frökkum og hafa í ríkara mæli leitað á náðir Rússa hvað varðar vopnastuðning.

Sagt er að Rússar hafi fært Afríkuþjóðum vopn að verðmæti fimm milljarða dollara árið 2023. Þá hafa rússnesk stórfyrirtæki verið dugleg við fjárfestingar í heimsálfunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka