Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur ákveðið að skipa bandamann sinn Kristi Noem, ríkisstjóra Suður-Dakóta, í ríkisstjórn sína sem heimavarnarráðherra.
Dagblaðið Wall Street Journal hefur þetta eftir heimildarmönnum rétt eins og CNN.
Ráðuneytið ber ábyrgð á viðbragði við náttúruhamförum, netöryggi og samgönguöryggi auk þess að framfylgja innflytjendalögum.
Trump hefur heitið því að flytja úr landi milljónir ólöglegra innflytjenda ásamt því að tryggja landamærin. Noem myndi því samkvæmt þessu sinna veigamiklu hlutverki í ríkisstjórn Trumps.
Noem var kjörin fyrst kvenna sem ríkisstjóri í Suður-Dakóta árið 2018. Hún vakti athygli fyrir að neita að koma á grímuskyldu og svo opna skóla fyrr en mörg önnur ríki, og naut fyrir það vinsælda.
Hún var lengi vel orðuð við að verða varaforsetaefni Trumps en kjörþokki hennar dvínaði eftir að hún gaf út ævisögu þar sem hún greindi frá því að hún hefði fyrir einhverjum árum síðan þurft að aflífa hvolpinn sinn með skotvopni.
Ástæðan var sú að erfitt reyndist að temja hvolpinn sem veiðihund ásamt því að hann réðst á hænsnabú hjá annarri fjölskyldu og drap nokkrar hænur.
Noem mun vinna náið með Tom Homan sem Trump tilkynnti á dögunum að myndi stýra landamæraeftirliti í Bandaríkjunum.