Búist er við að Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, tilnefni Marco Rubio öldungadeildarþingmann frá Flórída sem utanríkisráðherra, að því er The New York Times greinir frá.
Rubio tekur þá við embættinu af Antony Blinken en New York Times hefur þetta eftir þremur heimildarmönnum sínum. Rubio er varaformaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar og situr í utanríkismálanefndinni.
Þá greinir CBS sjónvarpsstöðin frá því að Trump ætli að skipa þingmanninn Michael Waltz sem næsta þjóðaröryggisráðgjafa en Waltz hefur lengi verið dyggur stuðningsmaður Trumps. Þjóðaröryggisráðgjafi veitir forsetanum ráðgjöf um þjóðaröryggismál. Það hefur í gegnum tíðina verði áhrifamikið hlutverk og er eitt fárra sem þarfnast ekki staðfestingar öldungadeildarinnar.