Flytur líklega ekki í Hvíta húsið

Donald Trump verðandi forseti Bandaríkjanna ásamt eiginkonu sinni, Melaniu Trump.
Donald Trump verðandi forseti Bandaríkjanna ásamt eiginkonu sinni, Melaniu Trump. AFP

Melania Trump, eiginkona verðandi forseta Bandaríkjanna Donalds Trumps, mun að öllum líkindum ekki flytja í Hvíta húsið með eiginmanni sínum er hann tekur við embætti forseta.

Samkvæmt heimildum CNN standa viðræður enn yfir um hvar verðandi forsetafrúin muni dvelja næsta kjörtímabil.

Afþakkaði boð í Hvíta húsið

Athygli vakti þegar Melania Trump ákvað að taka ekki þátt í formlegri heimsókn í Hvíta húsið í dag.

Jill Biden forsetafrú hafði boðið verðandi forsetafrúnni í heimsókn, samhliða því sem eiginmenn þeirra funduðu, en Melania afþakkaði.

Heimildarmenn segja að hún hafi verið vant við látin en hún er sögð hafa verið á viðburði í tengslum við bók sem hún var að gefa út.

Verður viðstödd stóra viðburði

Ákvörðun Melaniu Trump um að fylgja manninum sínum ekki í heimsóknina í dag og hugsanlega að flytja ekki í Hvíta húsið er talin gefa til kynna að hún muni hafa meira sjálfræði sem forsetafrú á komandi kjörtímabili. 

Heimildarmenn sem CNN ræddi við telja að verðandi forsetafrúin ætli að verja mestum tíma í New York og Flórída, þar sem fjölskylda hennar og vinir eru búsettir.

Aftur á móti tóku þeir fram að hún yrði viðstödd stóra viðburði en að hún myndi jafnframt koma fram á sínum eigin forsendum og leggja áherslu á þau mál er hún teldi mikilvæg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert