Breska dagblaðið The Guardian hefur ákveðið að hætta að birta eigið efni á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Talsmenn blaðsins segja að X, sem er í eigu auðkýfingsins Elon Musk, sé „eitraður miðill“ þar sem oft megi finna mjög vafasamt efni.
„Við teljum að ókostirnir við að vera á X séu nú fleiri en kostirnir,“ segir í yfirlýsingu sem blaðið hefur birt á vef sínum. Betra sé að horfa nú annað með kynningu á þeirra efni. The Guardian er með um 11 milljónir fylgjenda á X.
„Þetta er eitthvað sem við höfum verið að íhuga lengi í ljósi þess vafasama efnis sem birtist eða er hægt að finna á miðlinum, þar á meðal samsæriskenningar hægriöfgamanna og rasisma,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni The Guardian, sem er vinstrisinnað blað.
„Bandarísku forsetakosningarnar undirstrikuðu aðeins það sem við höfum hugsað í langan tíma; að X er eitraður miðill og að eiganda hans, Elon Musk, hafi tekist að beita áhrifum sínum til að hafa áhrif á pólitíska umræðu.“
Why the Guardian is no longer posting on X https://t.co/j4fRgzSYde
— The Guardian (@guardian) November 13, 2024