Þúsundir yfirgefa heimili sín á Costa del Sol

Gríðarlegt tjón varð í flóðunum sem fóru yfir Valenciu-hérað á …
Gríðarlegt tjón varð í flóðunum sem fóru yfir Valenciu-hérað á Spáni fyrir hálfum mánuði. AFP

Mörg þúsund íbúar á Costa del Sol á Spáni hafa orðið að yfirgefa heimili sín eftir að rauð veðurviðvörun var gefin út þar sem von er á gríðarlega mikilli úrkomu með tilheyrandi flóðahættu. 

Almannavarnir á Spáni sendu frá sér neyðarboð í alla síma í Málaga-héraði Spánar kl. 22 að staðartíma í gærkvöldi, eða kl. 21 að íslenskum tíma. Þar var varað við fyrrgreindu vatnsveðri. 

Búist er við að svæðið verði einna verst úti þegar veðurfyrirbærið, sem kallast Dana, fer þar yfir. Þarna eru margir vinsælir ferðamannastaðir á borð við Marbella, Velez og Estepona, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins. 

Talsverður viðbúnaður er í öðrum Spánarhéruðum vegna veðurs. Aðeins eru örfáar vikur frá því að rúmlega 220 manns létust vegna skyndiflóða sem urðu í kjölfar mikillar úrkomu í Valenciu-héraði Spánar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka