Evrópusambandið hefur sektað tæknifyrirtækið Meta, móðurfélag Facebook, um tæpar 800 milljónir evra, sem nemur um 117 milljörðum íslenskra króna, fyrir að brjóta gegn samkeppnisreglum með því að veita notendum Facebook sjálfvirkan aðgang að smáauglýsingaþjónustunni Facebook Marketplace.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig sagt fyrirtækið hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að setja ósanngjörn viðskiptaskilyrði á aðra þjónustuaðila sem auglýsa á vettvangi þess.
Var það mat stjórnarinnar að vegna þess að Facebook Marketplace sé bundið Facebook nyti fyrirtækið gífurlegs forskots á dreifingu sem aðrir keppinautar gætu ekki jafnað.
Að sögn framkvæmdastjórnarinnar fá allir notendur Facebook ósjálfrátt aðgang að Marketplace og eru reglulega útsettir fyrir því, sama hvort þeir vilji það eða ekki.
Þá hafi fyrirtækið sett ósanngjörn skilyrði fyrir samkeppnisaðila sem gerði fyrirtækinu kleift að notast við auglýsingatengd gögn sem búin voru til af öðrum í þágu Facebook Marketplace.
Því hefur Meta hafnað og hefur fyrirtækið gefið út að ákvörðun Evrópusambandsins verði áfrýjað.
Er það mat fyrirtækisins að framkvæmdastjórnin hafi hunsað blómstrandi veruleika evrópsks markaðar þegar kemur að flokkuðum skráningarþjónustum.
„Facebook-notendur geta valið hvort þeir noti Marketplace eða ekki og margir gera það ekki. Raunveruleikinn er sá að fólk notar Facebook Marketplace vegna þess að það vill það, ekki vegna þess að það þarf þess,“ sagði fyrirtækið í yfirlýsingu sem það sendi frá sér.
Þá segir fyrirtækið það vera vonbrigði að Evrópusambandið hafi gripið til eftirlitsaðgerða gegn ókeypis og nýstárlegri þjónustu sem hönnuð var til að mæta eftirspurn neytenda.
Sektin nemur 797,72 milljónum evra, eða rúmum 16,6 milljörðum íslenskra króna, og er sú nýjasta í röð þungra refsinga sem Evrópusambandið hefur beitt tæknifyrirtæki vegna vinnubragða þeirra undanfarin ár og er hún á meðal tíu stærstu sekta í samkeppniseftirliti frá upphafi.
Sagði framkvæmdastjórnin að sektin tæki mið af tímalengd og alvarleika brotsins en einnig var tekið mið af ársveltu Meta og Facebook Marketplace en hún nam í fyrra um 125 milljörðum evra.