Biðst afsökunar fyrir hönd yfirvalda

Mótmælendur fjölmenntu fyrir utan héraðsþingið þar sem Mazon ávarpaði þingið.
Mótmælendur fjölmenntu fyrir utan héraðsþingið þar sem Mazon ávarpaði þingið. AFP/Jose Jordan

Carlos Mazon, hæstráðandi í austurhluta Valensíuhéraðs á Spáni, segir yfirvöld hafa brugðist íbúum héraðsins í kjölfar skyndiflóða sem urðu í október. 

Mazon hefur beðist afsökunar fyrir hönd yfirvalda.

Alls létust 224 manns í flóðunum sem lögðu innviði, byggingar og akra í rúst.

Fjölmenntu fyrir utan þinghúsið

Mótmælendur fjölmenntu fyrir utan héraðsþingið þar sem Mazon ávarpaði þingið, þeir sögðu hann lygara og kölluðu eftir afsögn hans. 

Tæplega helmingur þeirra sem létu lífið í flóðunum í Valensíu voru 70 ára og eldri.

Þá létu 26 erlendir ríkisborgarar lífið í flóðunum í héraðinu.

Um 130 þúsund manns komu saman fyrr í mánuðinum til þess að mótmæla viðbrögðum yfirvalda.

Vissi ekki að hægt væri að senda tilkynningu

Viðbrögð yfirvalda eru sögð ámælisverð og hafa gagnrýnendur velt fyrir sér hvers vegna yfirvöld tilkynntu að um neyðarástand væri að ræða þrettán klukkutímum eftir viðvaranir frá spænsku Veðurstofunni.

Forstöðumaður almannavarna héraðsins sagðist ekki hafa vitað að hægt væri að senda tilkynningu um neyðarástand símleiðis fyrr en að kvöldi fyrsta flóðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert