Tíu fórust í eldsvoða á elliheimili

Slökkviliðið á Spáni. Mynd úr safni.
Slökkviliðið á Spáni. Mynd úr safni. AFP

Að minnsta kosti tíu manns biðu bana þegar eldur kom upp á elliheimili í bænum Villafranca de Ebro, nálægt Zaragoza, í norðausturhluta Spánar í nótt.

Neyðarþjónustan í Aragon-héraði gaf ekki upp frekari upplýsingar í færslu sinni á samfélagsmiðlinum X, en spænskir ​​fjölmiðlar sögðu að 82 manns hefðu verið inni á elliheimilinu þegar eldurinn kom upp um klukkan 5 í nótt að staðartíma.

Tveir voru fluttir á sjúkrahús og segja fjölmiðlar að ástand annars þeirra sé alvarlegt en talið er að upptök eldsins hafi átt sér stað í dýnu í einu af herbergjum elliheimilisins sem hefur sérhæft sig í umönnun íbúa með geðræn vandamál.

Fulltrúi spænsku ríkisstjórnarinnar í Aragón-héraði, Fernando Beltrán, vottaði fórnarlömbunum samúð sína og sagði að þau myndu halda áfram að fylgjast með framgangi þeirra sem liggja á sjúkrahúsi og rannsókn á orsökum eldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert