Aðstoðarmaður sagður hafa lekið trúnaðargögnum

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Aðstoðarmaður Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels, er sagður hafa lekið trúnaðargögnum til erlendra fjölmiðla í þeirri trú að upplýsingarnar myndu hafa áhrif á almenningsálit er kemur að viðræðum um frelsun gísla. 

CNN hefur þetta eftir tilkynningu ísraelsks dómstóls. 

Eliezer Feldstein var handtekinn fyrr í mánuðinum fyrir að hafa „lekið leynilegum og viðkvæmum upplýsingum“.

Í tilkynningu frá héraðsdómi í Rishon Lezion segir að lekinn hafi byrjað með því að liðþjálfi í Ísraelsher lak trúnaðargögnum hersins til Feldstein í apríl. 

Feldstein lak gögnunum síðan til erlendra fjölmiðla í september „með það að markmiði að hafa áhrif á almenningsálit á yfirstandandi viðræðum varðandi gísla“.

Meinað að greina frá

Gögnunum var lekið stuttu eftir að Ísraelsher greindi frá því þann 1. september að sex gíslar hefðu verið myrtir á Gasa. 

Ísraelskum fjölmiðlum var meinað að greina frá innihaldi gagnanna og reyndi Feldstein því að „komast hjá ritskoðuninni og birta skjalið í erlendum fjölmiðlum“. 

Tvær greinar birtust í september, önnur í breska miðlinum Jewish Chronicle og hins vegar í þýska miðlinum Bild, með upplýsingum skjalsins. 

Báðir miðlar vitnuðu í ísraelsk leyniþjónustugögn og styddu frásögn Netanjahús á stríðsrekstrinum. 

Mistök ríkisstjórnarinnar

Yair Lapid stjórnarandstæðingur og Benny Gantz, sem hætti í þjóðstjórn Netanjahús fyrr á þessu ári, sögðu lekann mistök ríkisstjórnarinnar. Báðir kenna skrifstofu forsætisráðherrans um lekann.

Gantz lýsti atvikinu sem „þjóðarglæp“ og sakaði Netanjahú um að nota lekann sér í hag. 

Talsmaður Netanjahús neitaði fyrr í mánuðinum að lekinn kæmi frá skrifstofu forsætisráðherrans. 

„Viðkomandi einstaklingur tók aldrei þátt í öryggistengdum umræðum,“ sagði hann og vísaði til Feldstein aðstoðarmanns. 

Þá sagði talsmaðurinn það vera fráleitt að telja að lekinn hafi haft áhrif á viðræður um frelsun gíslanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert