Hegseth borgaði konu sem sakaði hann um ofbeldi

Pete Hegseth árið 2016.
Pete Hegseth árið 2016. AFP

Pete Hegseth, sem Donald Trump hefur útnefnt sem næsta varnarmálaráðherra, borgaði konu sem sakaði hann um kynferðisofbeldi sáttargreiðslu. Konan undirritaði þess í stað ákvæði um þagnarskyldu, að sögn lögfræðings Hegseth. 

CNN greinir frá þessu en hinn 44 ára gamli Hegseth er þáttastjórnandi á Fox News. 

Hegseth neitar að hafa beitt konuna ofbeldi og sagði lögmaður hans, Timothy Parlatore að atvikið sem um ræðir hafi verið „kynferðislegt með samþykki beggja aðila“.

Atvikið átti sér stað á hóteli í Monerey í Kaliforníu í október árið 2017. Hegseth var þar til þess að flytja erindi á ráðstefnu kvenna í Repúblikanaflokknum.

Áverkar á læri 

Embættismenn í Monterey staðfestu í liðinni viku að lögregla hefði rannsakað „meint kynferðisbrot“ Hegseth.

Konan tilkynnti atvikið fjórum dögum eftir að það átti sér stað. 

Í yfirlýsingu borgarinnar sagði að engin vopn hefðu verið notuð, en konan hlaut áverka á hægra læri. 

Borgin neitaði að gefa út upplýsingar um fórnarlambið eða opinbera lögregluskýrslur málsins. 

Hegseth hefur ekki verið ákærður í neinu sakamáli og þá hefur ekki verið höfðað einkamál gegn honum í tengslum við atvikið. 

Hegseth er 44 ára gamall þáttastjórnandi á Fox News.
Hegseth er 44 ára gamall þáttastjórnandi á Fox News. AFP

Fórnarlamb fjárkúgunar

Í yfirlýsingu Parlatore lögmanns sagði að árið 2020 hefði Hegseth fengið veður af því að konan hygðist höfða einkamál.

Lögmaðurinn sagði að Hegseth hefði sætt sig við að greiða konunni „umfangsminni upphæð“ vegna Me Too-hreyfingarinnar. Hann vildi ekki missa vinnuna hjá Fow News ef málið yrði gert opinbert.

Í yfirlýsingunni kom ekki fram hversu mikið Hegseth greiddi konunni sem er gift.

Parlatore sagði að Hegseth upplifði sig sem fórnarlamb fjárkúgunar.

Neitaði viðtali 

CNN ræddi stuttlega við konuna á fimmtudag. Í fréttinni segir að hún hafi farið í uppnám er Hegseth var nefndur á nafn.

Hún neitaði að veita viðtal án þess að ráðfæra sig við lögmann sinn. 

Þá svaraði hún ekki beiðnum um viðtal eftir það. 

Heg­seth býr ásamt eig­in­konu sinni og sjö börn­um í Tenn­essee–ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert