Agnar Már Másson
Rússar hafa enn á ný ráðist á úkraínska orkuinnviði. Úkraínumenn þurftu í nótt að þola „eina stærstu loftárás“ til þessa að sögn utanríkisráðherra landsins. Pólverjar eru á hæsta varúðarstigi.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir að 120 flugskeytum og 90 drónum hafi verið beitt í „gríðarstórri árás á öllum svæðum Úkraínu“. Úkraínuher náði þó að skjóta niður flest flugskeytanna.
Stærsta orkufyrirtæki Úkraínu segir að eitt orkuver hafi orðið fyrir „gríðarlega miklu tjóni“ í árásunum. Rafmagnslaust er í þremur héruðum landsins.
„Rússar gerðu eina stærstu loftárás [til þessa]: Drónum og flugskeytum var beitt gegn friðsömum borgum og sofandi borgurum, og nauðsynlegum innviðum,“hefur AFP eftir Andrí Síbiga, utanríkisráðherra Úkraínu.
Pólverjar reyna nú að smala saman flughernum sínum vegna árásarinnar.
Aðgerðastjórn pólska hersins skrifar á samfélagsmiðla að Pólland hafi „virkjað allar mögulegar hersveitir“ og að herinn sé á „hæsta varúðarstigi“.