Annar sæstrengur rofinn: Svíar á varðbergi

Sænskur orrustubátur á ferð við heræfingu. Yfirvöld í Svíþjóð segjast …
Sænskur orrustubátur á ferð við heræfingu. Yfirvöld í Svíþjóð segjast líta málið alvarlegum augum. AFP

Sæstrengur sem liggur um Eystrasalt á milli Svíþjóðar og Litháen hefur verið rofinn.

Sænska ríkisútvarpið greinir frá en þetta er annar sæstrengurinn í Eystrasalti sem verður fyrir skemmdum á skömmum tíma.

Þegar hefur verið greint frá rofi sæstrengs á milli Finnlands og Þýskalands. Talið er að skorið hafi verið á hann vísvitandi.

Til rannsóknar hjá sænskum yfirvöldum

Að sögn sænska varnarmálaráðuneytisins eru nú bæði atvikin til rannsóknar hjá sænskum yfirvöldum, en rof sæstrengsins á milli Finnlands og Þýskalands varð í sænskri efnahagslögsögu.

Litið er á málið sem alvarlegt öryggismál og er ríkisstjórn Svíþjóðar sögð munu fylgjast grannt með gangi mála.

Þá er einnig haft eftir varnarmálaráðuneytinu að það sé gífurlega mikilvægt að það komi skýrt fram hvers vegna það séu nú tveir sæstrengir í Eystrasalti sem virka ekki.

Augljóst að þetta var ekkert slys

Litháíski ríkismiðillinn LRT hefur eftir sérfræðingi fjarskiptafyrirtækisins Telia, sem hefur umsjón með strengnum, að það sé aðeins á um tíu fermetra svæði sem strengirnir tveir skarast.

„Þar sem báðir rofnuðu þá er augljóst að það var ekkert slys á borð við að sleppa akkeri á röngum stað, þetta gæti verið eitthvað alvarlegra,“ tjáir hann LRT. 

Fjallað var um það í dag hvernig sænsk og finnsk stjórnvöld hefðu hvatt íbúa til að búa sig undir stríð. Nánari umfjöllun verður í Morgunblaðinu á morgun, þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka