Rússneski ballettdansarinn Vladimír Shkljarov er látinn 39 ára að aldrei. Hann var einn fremsti karldansari Rússlands og naut vinsælda um allan heim.
Shkljarov starfaði hjá Mariínskíj-leikhúsinu í Pétursborg, en félagið greindi frá andláti hans um helgina.
Fram kemur í rússneskum fjölmiðlum að lögreglan rannsaki nú hvernig andlát hans bar að.
Talsmenn Maríínskíj greindu fjölmiðlum frá því að Shkljarov hefði fallið fram af fimmtu hæð byggingar í Pétursborg undir áhrifum verkjalyfja, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.
„Þetta er gríðarmikill missir, ekki einvörðungu fyrir starfsfólk leikhússins, heldur fyrir nútímaballett eins og hann leggur sig,“ sagði leikhúsið í yfirlýsingu.
Shkljarov var kvæntur dansaranum Maríu Shkljarov og eignuðust þau tvö börn.
Shkljarov starfaði hjá Mariínskíj í 20 ár og tók þátt í fjölmörgum frægum uppfærslum, m.a. uppsetningu á Svanavatninu, Don Kíkóta og Rómeó og Júlíu.
Hann kom fram víða um heim á mörgum þekkustu sviðum dansheimsins, m.a. í Konunglega óperuhúsinu í Lundúnum og í Metropolitan-óperunni í New York.
Þá hlaut hann fjölmörg verðlaun, en hann var t.a.m. útnefndur heiðurslistamaður Rússlands árið 2020.