Sæstrengur rofinn og grunur um skemmdarverk

Frá lagningu C-Lion1-sæstrengsins í október árið 2015.
Frá lagningu C-Lion1-sæstrengsins í október árið 2015. AFP

Sæstrengur á milli Finnlands og Þýskalands hefur rofnað. Talið er að skorið hafi verið á hann vísvitandi. Utanríkisráðherrar landanna tveggja segjast hafa þungar áhyggjur í sameiginlegri yfirlýsingu.

Sæstrengurinn, sem nefnist C-Lion1 og flytur fjarskiptaboð, er um 1.200 kílómetra langur og er eina beina tenging Finnlands við Mið-Evrópu.

Þá liggur hann meðfram öðrum innviðum á sjávarbotni svo sem gas- og raforkuleiðslum.

Í yfirlýsingu frá finnska fyrirtækinu Cinia, sem hefur umsjón með strengnum, segir að verið sé að rannsaka málið.

Verða ekki án utanaðkomandi áreksturs

Haft er eftir talsmanni Cinia í finnskum miðlum að allar tengingar í strengnum séu í sundur.

„Á þessari stundu er ekki mögulegt að meta ástæðu rofsins, en rof sem þetta verður ekki á þessu svæði án utanaðkomandi áreksturs,“ segir talsmaðurinn.

Rof strengsins á sér stað aðeins nokkrum vikum eftir að Bandaríkin vöruðu við aukinni starfsemi rússneska hersins í kringum mikilvæga sæstrengi.

Greint var frá því í dag að sænsk stjórnvöld væru tekin að senda fimm millj­ón bæk­linga til lands­manna þar sem þeir eru hvatt­ir til að búa sig und­ir mögu­leg stríðsátök. Þá hafa Finn­ar opnað sér­staka vefsíðu þar sem farið er yfir mik­il­væg atriði, komi til átaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert