Hefur numið staðar í fylgd danskra herskipa

HDMS Søløven á Eystrasalti. Mynd úr safni.
HDMS Søløven á Eystrasalti. Mynd úr safni. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Kínverskt skip, sem grunað er um að hafa rofið sæstrengina tvo í Eystrasalti, hefur varpað akkerum fyrir miðju Kattegat á milli Danmerkur og Svíþjóðar.

Í kringum það hafa dönsk herskip siglt, miðað við opinber kortagögn.

Er þó nú aðeins herskipið HDMS Søløven, eða Sæljónið, við hlið kínverska skipsins. Herskipið er sérstaklega útbúið til að styðja við kafara.

Ekki allt með felldu

Eins og greint hefur verið frá rofnuðu tveir sæstrengir í Eystrasalti á innan við tveimur sólarhringum, á milli Finnlands og Þýskalands annars vegar og Litháen og Svíþjóðar hins vegar.

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur sagt að rof á tveimur strengjum í Eystrasalti sé skýrt merki um að ekki sé allt með felldu.

„Enginn trúir því að þessir strengir hafi óvart rofnað,“ sagði hann.

Allt bendi til viljaverks

Finnska símfyrirtækið Cinia tilkynnti að morgni mánudags að sæstrengur fyrirtækisins, C-Lion1, sem liggur á milli Helsinki í Finnlandi og Rostock í Þýskalandi, hefði rofnað.

Utanríkisráðherrar Þýskalands og Finnlands, Annalena Baerbock og Elina Valtonen, ýjuðu báðir að því að rofið væri skemmdarverk.

Aðfaranótt þriðjudags greindi talsmaður símfyrirtækisins Telia frá því að sæstrengur þess frá Litháen til Svíþjóðar hefði einnig rofnað.

„Við getum staðfest að truflanir á netvirkni hafi ekki verið sökum kerfisbilunar heldur vegna skemmda á sæstrengnum,“ sagði Audrius Stasiulaitis, talsmaður fyrirtækisins.

Í sameiginlegri yfirlýsingu varnarmálaráðherra Svíþjóðar og Litháens, Pål Jonson og Laurynas Kasciunas, segja ráðherrarnir að meta verði stöðuna út frá ógninni sem stafi af nágrannaríki þeirra, Rússlandi.

Veittu kínversku skipi eftirför

Carl-Oskar Bohlin, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði yfirvöld vera að skoða skip á ferðinni um Eystrasaltið um það leyti sem að strengirnir rofnuðu.

Sæstrengurinn á milli Finnlands og Þýskalands kom að landi í Rostock í síðarnefnda ríkinu, en Atlantshafsbandalagið opnaði þar í síðasta mánuði nýja herskipahöfn til að samhæfa viðbrögð bandalagsins í Eystrasaltinu.

Í kjölfarið boðuðu yfirvöld í Rússlandi sendiherra Þýskalands, Alexander Graf Lambsdorff, á sinn fund til að mótmæla opnun hafnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert