Úkraínuher beitir langdrægum eldflaugum

Úkraínuher hefur áður notast við langdrægar eldflaugar á hernumdum svæðum …
Úkraínuher hefur áður notast við langdrægar eldflaugar á hernumdum svæðum innan Úkraínu. Samsett mynd/Vyacheslav Prokofyev/AFP

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir Úkraínuher hafa beitt langdrægum eldflaugum fyrr í dag.

Í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu segir að loftvarnir Rússa hafi hindrað veg fimm eldflauga. Loftvarnirnar splundruðu einni eldflaug en leifar hennar urðu kveikja að eldi í rússneskri hernaðaraðstöðu.

Segja engan hafa hlotið skaða af 

Varnarmálaráðuneytið segir Úkraínuher hafa skotið eldflaugunum að Bryansk-héraði í nótt.

Að sögn varnarmálaráðuneytisins hlaut enginn skaða af eldinum og búið er að kæfa hann.

Þetta er í fyrsta sinn sem Úkraínuher notast við langdrægar eldflaugar en Joe Biden Bandaríkjaforseti gaf Úkraínumönnum leyfi fyrir notkun þeirra á rússneskri grundu í fyrradag.

Úkraínuher hefur áður notast við eldflaugarnar á hernumdum svæðum innan Úkraínu.

Liðkaði fyrir notkun kjarnorkuvopna

Úkraínuher sagði fyrr í dag að eldflaugar hersins hefðu hæft skotfærageymslu í Bryansk-héraði en tilgreindi ekki gerð eldflaugarinnar.

Eftir að Biden gaf grænt ljós á notkun Úkraínumanna á langdrægum eldflaugum liðkaði Vladímir Pútín Rússlandsforseti fyrir þeim skilyrðum sem kveða á um notkun kjarnorkuvopna.

Með nýrri skilgreiningu má taka til skoðunar notkun kjarnorkuvopna gegn ríki sem býr ekki yfir kjarnorkuvopnaforða búi það ríki að stuðningi kjarnorkuríkis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert