Danir og Svíar útiloka ekki skemmdarverk

Danski sjóherinn hefur fylgst með ferðum kínverska flutningaskipsins Yi Peng …
Danski sjóherinn hefur fylgst með ferðum kínverska flutningaskipsins Yi Peng 3 í Eystrasaltinu. AFP

Forsætisráðherrar Danmerkur og Svíþjóðar útiloka ekki að um skemmdarverk hafi verið að ræða þegar tveir sæstrengir í Eystrasaltinu fóru í sundur. Ráðherrarnir segja jafnframt að það sé aukin hætta á svokölluðum blönduðum árásum (e. hybrid attacks), en það er þegar gerðar eru margar ólíkar árásir til að lama tölvu- og netkerfi.

Á mánudag voru unnar skemmdir á C-Lion 1-neðansjávarstrengnum, sem tengir Helsinki í Finnlandi við þýsku hafnarborgina Rostcok, skammt suður af eyjunni Eyland við Svíþjóð.

Degi áður var strengurinn Arelion einnig skemmdur, en hann liggur frá Gotlandi í Svíþjóð til Litháens.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Rannsókn í gangi

Ríkin fjögur sem tengjast skemmdu sæstrengjunum, þ.e. Finnland, Þýskaland, Litháen og Svíþjóð, hafa öll hafið rannsókn.

Boris Pistorious, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í gær að „við þurfum einnig að álykta, án þess að vita það með vissu, að þetta hafi verið skemmdarverk.“

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir í samtali við fréttaveituna Ritzau að dönsk stjórnvöld fylgist grannt með þróun mála. Hún bætti við að það myndi ekki koma henni á óvart ef þarna hefði utanaðkomandi aðili unnið skemmdarverk.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Meiri órói

Hún sagði enn fremur að vegna þeirrar spennu sem ríki við Eystrasaltið þá væri „hætta á blönduðum árásum, tölvuárásum og árásum á mikilvæga innviði.“

„Við verðum vör við sífellt meiri óróa á nokkrum vígstöðvum,“ bætti Frederiksen við.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, tók í svipaðan streng í dag. Hann sagði að það gæti vel verið að einhver hafi skemmt strengina viljandi.

Hann tók þó fram að þetta væri þó ekki vitað með vissu á þessari stundu.

Verið er að skða hvort Yi Peng 3 tengist mögulega …
Verið er að skða hvort Yi Peng 3 tengist mögulega skemmdum sæstreng. AFP

Fylgjast með kínversku flutningaskipi

„Við lifum á tímum þar sem við þurfum að taka allar svona ógnir alvarlega. Við höfum áður orðið vitni að skemmdarverkum,“ bætti Kristersson við. 

Danski sjóherinn greindi frá því í dag að hann hefði verið að fylgjast með kínversku flutningaskipi í Eystrasaltinu, en skipið hafði verið á siglingu í námunda við C-Lion 1-strenginn á sama tíma og hann skemmdist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert