Forsætisráðherrar Danmerkur og Svíþjóðar útiloka ekki að um skemmdarverk hafi verið að ræða þegar tveir sæstrengir í Eystrasaltinu fóru í sundur. Ráðherrarnir segja jafnframt að það sé aukin hætta á svokölluðum blönduðum árásum (e. hybrid attacks), en það er þegar gerðar eru margar ólíkar árásir til að lama tölvu- og netkerfi.
Á mánudag voru unnar skemmdir á C-Lion 1-neðansjávarstrengnum, sem tengir Helsinki í Finnlandi við þýsku hafnarborgina Rostcok, skammt suður af eyjunni Eyland við Svíþjóð.
Degi áður var strengurinn Arelion einnig skemmdur, en hann liggur frá Gotlandi í Svíþjóð til Litháens.
Ríkin fjögur sem tengjast skemmdu sæstrengjunum, þ.e. Finnland, Þýskaland, Litháen og Svíþjóð, hafa öll hafið rannsókn.
Boris Pistorious, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í gær að „við þurfum einnig að álykta, án þess að vita það með vissu, að þetta hafi verið skemmdarverk.“
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir í samtali við fréttaveituna Ritzau að dönsk stjórnvöld fylgist grannt með þróun mála. Hún bætti við að það myndi ekki koma henni á óvart ef þarna hefði utanaðkomandi aðili unnið skemmdarverk.
Hún sagði enn fremur að vegna þeirrar spennu sem ríki við Eystrasaltið þá væri „hætta á blönduðum árásum, tölvuárásum og árásum á mikilvæga innviði.“
„Við verðum vör við sífellt meiri óróa á nokkrum vígstöðvum,“ bætti Frederiksen við.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, tók í svipaðan streng í dag. Hann sagði að það gæti vel verið að einhver hafi skemmt strengina viljandi.
Hann tók þó fram að þetta væri þó ekki vitað með vissu á þessari stundu.
„Við lifum á tímum þar sem við þurfum að taka allar svona ógnir alvarlega. Við höfum áður orðið vitni að skemmdarverkum,“ bætti Kristersson við.
Danski sjóherinn greindi frá því í dag að hann hefði verið að fylgjast með kínversku flutningaskipi í Eystrasaltinu, en skipið hafði verið á siglingu í námunda við C-Lion 1-strenginn á sama tíma og hann skemmdist.