Rússneskt hugbúnaðarfyrirtæki hefur boðið sjö ára gömlu „undrabarni“ að ganga til liðs við fyrirtækið um leið og barnið nær aldri til að fá greidd laun.
Hinn sjö ára gamli Sergey frá Sankti Pétursborg hefur skapað sér ágætt nafn með því að hlaða inn myndskeiðum á síðuna YouTube þar sem hann útskýrir kóðun og kennir Python og Unity. Auk þess kennir hann áhorfendum ýmiss konar brellur sem framkvæma má með aðstoð gervigreindar.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Hefur Sergey hlaðið inn myndskeiðunum frá fimm ára aldri og er nú með um 3.500 áskrifendur á síðu sinni.
Hugbúnaðarfyrirtækið Pro32, sem staðsett er í Moskvu, hefur nú boðið drengnum starf við að þjálfa starfsmenn fyrirtækisins.
Samkvæmt rússneskum lögum má þó Sergey ekki taka við launuðu starfi fyrr en hann verður 14 ára gamall en að sögn Igor Mandik, framkvæmdastjóra Pro32, hefur verið rætt við foreldra Sergeys um að öðrum leiðum verði beitt á meðan svo fyrirtækið geti notið krafta drengsins.
Segir framkvæmdastjórinn að Sergey sýni ekki aðeins einstaka færni í kóðun heldur hafi einnig eins mikla færni í kennslu.
„Fyrir mér, þá er hann hálfgerður Mozart,“ segir Mandik.
„Ég er viss um að þegar hann nær 14 ára aldri muni hann verða leiðtogi þegar kemur að kennslu og leiðtogi þegar kemur að þróun og það er ástæðan fyrir að við hlökkum gífurlega til þess tíma.“
Þá er haft eftir Mandik að ekki einungis kóðarar gætu lært eitthvað af Sergey, heldur einnig sölumenn, endurskoðendur og aðrir starfsmenn fyrirtækisins.
Engin loforð hafa verið gefin í sambandi við laun drengsins en búist er við að það muni breytast verulega með tíð og tíma en segir Mandik að bíða þurfi í sjö ár.
„Þá munum við klárlega hefja samtal um launin hans.“