J. Ann Selzer, eigandi bandaríska könnunarfyrirtækisins Selzer & Company, hefur ákveðið að leita á ný mið að hafa gefið út könnun fáeinum dögum fyrir kosningar sem reyndist vera kolröng frávikskönnun.
CNN greinir frá.
Selzer gaf út kannanir sínar um áraraðir fyrir dagblaðið Des Moine Register í Iowa-ríki.
Aðeins nokkrum dögum fyrir kosningarnar 5. nóvember gaf fyrirtækið út könnun í Iowa þar sem fram kom að Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, hefði þriggja prósentustiga forskot á Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.
Könnunin kom verulega á óvart í ljósi þess hversu afgerandi sigrar Trumps höfðu verið í ríkinu í síðustu tveimur forsetakosningum.
Álitsgjafar fóru að velta því fyrir sér hvort Harris væri með falinn stuðning sem aðrar kannanir voru ekki að greina og hvort þetta gæfi til kynna mögulega stórsigur Harris.
En svo kom kjördagur og Trump vann afgerandi sigur í ríkinu og hlaut 56% atkvæða en Harris aðeins 42,7% atkvæða.
Kannanir Selzer, síðan hún byrjaði að sjá um þær fyrir Des Moine Register, hafa oft og tíðum verið skuggalega nálægt niðurstöðum kosninga og hún notið mikillar virðingar.
Hennar könnun var t.d. eina könnunin sem spáði rétt fyrir um sigur Baracks Obama í Iowa í forvali demókrata árið 2008.
Fyrir forsetakosningarnar í ár hafði hún spáð rétt fyrir um sigurvegarann í forsetakosningum í Iowa fimm sinnum af þeim sex sem hún hafði mælt.
Í aðsendri grein í Des Moine Register sagði Selzer að ákvörðun hennar um að hætta hefði verið tekin löngu áður en þessi lokakönnun kom út.
„Fyrir rúmu ári síðan lét ég dagblaðið vita að ég myndi ekki endurnýja samninginn þegar hann rynni út árið 2024, eftir síðustu könnunina, þar sem ég myndi færa mig yfir í önnur verkefni og tækifæri,“ skrifaði Selzer.