Justin Sun, kínverskur frumkvöðull í rafmyntaheiminum, mun á næstu dögum borða banana sem hann keypti á 6,2 milljónir bandaríkjadala sem jafngilda nærri 900 milljónum íslenskra króna.
Bananann keypti Sun á uppboði hjá Sotheby´s í New York í gær sem hluta af listaverki ítalska listamannsins Maurizio Cattelan, Grínista eða Comedian, og hafði hann betur í baráttu við sex keppinauta. BBC greinir frá.
Listaverk Cattelan er banani teipaður við vegg og hefur verkið vakið mikla athygli síðan það var fyrst afhjúpað almenningi 2019. Uppboðsverðið reyndist fjórum sinnum hærra en áætlað var í aðdraganda uppboðsins.
„Á næstu dögum mun ég borða bananann sem hluta af þessari einstöku listupplifun,“ var haft eftir Kínverjanum.
Bananinn í Grínista hefur verið borðaður oftar en einu sinni. Árið 2023, þegar verkið var til sýnis í Leeum-listasafninu í Seúl í Suður-Kóreu, bjargaði innfæddur listnemi sér um millimál á vegg og fjórum árum áður gerði gjörningalistamaður það sama áður en verkið var selt á 120 þúsund dollara í Art Basel í Miami.
Í báðum tilvikum var nýjum banana komið fyrir í verkinu og ekki gripið til frekari aðgerða.
Bananinn var að sögn New York Times keyptur fyrr um daginn á 35 sent eða um 50 íslenskar krónur. Engum sögum fer af því hvað límbandsbúturinn kostaði sem notaður var til að fullkomna listaverkið.
Með verkinu fylgja leiðbeiningar um hvernig eigi að skipta um banana þegar hann rotnar.
Eftir að Grínisti var afhjúpaður í fyrsta sinn kærði bandaríski listamaðurinn Joe Morford Ítalann fyrir stuld á hugverki sínu en sá bandaríski hafði áður birt verk þar sem banani úr plasti og appelsína úr plasti voru teipuð á tréspjöld sem héngu á vegg.
Þrátt fyrir að Morford hafi skráð einkarétt á verki sínu taldi dómari verkin nægilega ólík til að úrskurða gegn einkaleyfishafanum.
Justin Sun rekur Tron „blockchain-netkerfið“ sem ætlað er að flýta fyrir ferlinu að draga úr miðstýringu á veraldarvefnum. Hann er metinn á um 1,4 milljarða dollara sem jafngilda um 200 milljörðum króna.
Á síðasta ári var Sun kærður af bandaríska verðbréfaeftirlitinu, sem sakar hann um fjársvik með því að hafa blásið upp viðskiptamagn TRON-rafmyntarinnar með sýndarviðskiptum og óskráðum viðskiptum. Sun neitar sök.
Á sama tíma voru átta þekktir einstaklingar kærðir fyrir að auglýsa TRON og BitTorrent rafmyntirnar án þess að taka fram að greiðsla hafi verið þegin fyrir. Það voru þau Lindsay Lohan, Jake Paul, Soulja Boy, Austin Mahone, Kendra Lust, Lil Yachty, Ne-Yo og Akon. Voru þau samtals sektuð um 400 þúsund bandaríkjadali eða um 57 milljónir króna.