Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sakar Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag um gyðingahatur.
Dómarar við dómstólinn hafa gefið út handtökuskipun á hendur Netanjahú, Yoav Gallant, fyrrverandi varnarmálaráðherra Ísraels, og Mohammed Deif, einum af yfirmönnum Hamas-samtakanna.
„Ákvörðun Alþjóðadómstólsins sem byggð er á gyðingahatri má líkja við nútíma Dreyfus-réttarhöld og mun hljóta sömu málalok,“ segir Netanjahú í yfirlýsingu og vísar þar til alræmds máls sem kom upp á 19. öld þegar franski gyðingurinn Alfred Dreyfus var ranglega sakfelldur fyrir landráð.
Forsætisráðherrann ísraelski segir að stríð Ísraela á Gasasvæðinu, sem hófst í kjölfar árása Hamas á Ísrael í október á síðasta ári, sé réttlátt og að Ísrael hafni með andstyggð fáránlegum og fölskum aðgerðum og ásökunum gegn ríkinu.
Í yfirlýsingunni sakar Netanjahú aðalsaksóknara dómstólsins, Karim Khan, um spillingu og heldur því fram að handtökuskipanirnar væru tilraun hans til að bjarga sér frá alvarlegum ásökunum um kynferðislega áreitni. Khan hefur staðfastlega neitað ásökunum.
Netanjahú segir dómarana drifna áfram af gyðingahatri á Ísrael og heitir því að handtökuskipanirnar muni ekki hindra Ísraelsríki við að verja borgara landsins.
Isaac Herzog, forseti Ísraels, lýsir aðgerðum dómstólsins sem dimmum degi fyrir réttlætið og utanríkisráðherrann Gideon Saar segir dómstólinn hafa glatað lögmæti sínu
Þjóðaröryggisráðherrann Itamar Ben-Gvir hvetur stjórnvöld til að bregðast við með því að innlima allan Vesturbakkann, sem Palestínumenn telja hluta af þeirra framtíðarríki.
Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, gagnrýndi einnig ákvörðun dómstólsins.
„Ísrael er að verja líf þegna sinna gegn hryðjuverkasamtökum sem réðust á, myrtu og nauðguðu fólkinu okkar. Handtökuskipanirnar eru verðlaun fyrir hryðjuverk,“ segir Lapid í yfirlýsingu.