Efast ekki um að Bandaríkin átti sig á skilaboðum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti í Kreml í morgun.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti í Kreml í morgun. AFP/Vyacheslav Prokofyev

Rússnesk stjórnvöld segjast ekki vera í neinum vafa um að bandarísk stjórnvöld hafi skilið aðvörun Vladimír Pútíns Rússlandsforseta þegar Rússar skutu nýrri meðaldrægri eldflaug í átt að Úkraínu sem getur borið kjarnaodda.

„Við erum í engum vafa um að núverandi ríkisstjórn í Washington hefur haft tækifæri til að kynna sér þessa tilkynningu og skilja hana,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, einum degi eftir að flauginni var skotið á loft.

Pútín varaði í gær við því að Rúss­ar gætu beitt sömu eld­flaug­um gegn þeim ríkj­um sem hafa heim­ilað Úkraínu­her að skjóta lang­dræg­um eld­flaug­um að rúss­neskri grundu, sem eru Bret­land og Banda­rík­in.

„Hræðileg stigmögnun“

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur fordæmt ákvörðun Rússa um að skjóta eldflauginni á loft. Hann segir þetta sýna „hversu hættulegt þetta stríð er“.

Olaf Scholz.
Olaf Scholz. AFP/Daniel Ramalho

„Það að Pútín hafi núna notað meðaldræga eldflaug til að skjóta á úkraínskt landssvæði er hræðileg stigmögnun,“ sagði Scholz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert