Segir að friði verði aðeins náð með afli

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur kallað eftir hörðum viðbrögðum frá þjóðarleiðtogum í kjölfar árásar Rússa í gær þar sem langdrægri eldflaug var skotið í átt að Úkraínu í fyrsta sinn.

Greint hefur verið frá að eldflaugin hafi verið á meðal annarra eldflauga af nokkrum tegundum sem skotið var í átt að borginni Dnípró þar sem skotmörkin voru mikilvægir innviðir.

Þá var það í fyrsta sinn sem Rússar hefðu frá innrásinni í Úkraínu notað slík vopn, sem geta hæft skotmörk í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.

„Þetta er augljós og alvarleg stigmögnun á umfangi og grimmd þessa stríðs,“ segir Selenskí í yfirlýsingu sem hann gaf frá sér í gærkvöldi.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði árásina í gærmorgun vera svar við árás Úkraínumanna fyrr í vikunni þar sem langdrægum eldflaugum frá Bretlandi og Bandaríkjunum var beitt gegn Rússlandi.

Þá varaði hann einnig við því að Rússar gætu beitt sömu eldflaugum gegn þeim ríkjum sem hafa heimilað Úkraínuher að skjóta langdrægum eldflaugum að rússneskri grundu.

Heimurinn þurfi að bregðast við

Í yfirlýsingu sinni gagnrýnir Selenskí viðbrögð alþjóðasamfélagsins og varar við að önnur lönd gætu einnig orðið skotmörk Pútíns.

„Heimurinn þarf að bregðast við. Einmitt núna sjáum við engin hörð viðbrögð.“

Segir forsetinn að það sé nauðsynlegt að hvetja Rússland til friðar og að það verði einungis gert með afli.

„Annars verða linnulausar rússneskar árásir, ógnir og óstöðugleiki, og það verður ekki bara gegn Úkraínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert