Ása Ellerup flutt út og ætlar að selja húsið

Húsleit var gerð á heimili Ásu Ellerup og Rex Heuermann …
Húsleit var gerð á heimili Ásu Ellerup og Rex Heuermann eftir að hann var handtekinn í júlí 2023. AFP/Yuki Iwamura

Ása Ell­erup, eig­in­kona meinta raðmorðingj­ans Rex Heu­er­mann, ætlar að setja hús fjölskyldunnar í Long Island í sölu.

New York Times greinir frá þessu en DV greindi frá fyrstur íslenskra miðla. 

Í grein NYT segir að flutningagámur hafi verið fyrir utan hús Ásu í Massapequa Park í vikunni. 

„Það besta sem gæti komið fyrir er að þeir jafni húsið við jörðu og byggi nýtt svo að minning þess sé afmáð,“ sagði hinn áttræði nágranni Ásu, Albert Cella.

Heuermann er nú í fangelsi í Suffolk–sýslu og býður réttarhalda. Hann er ákærður fyrir að hafa myrt sex konur frá árinu 1993. Hann neitar sök.

Að sögn lögmanns Ásu ætlar hún að flytja til Suður-Karólínu með tveimur uppkomnum börnum sínum. Hún keypti hús þar fyrir nokkrum árum til þess að eyða elliárunum í.

Að sögn lögmanns Ásu mun skilnaður þeirra hjóna ganga í gegn á næstu sex mánuðum og verður þá heimilið í Massapequa Park sett á sölu.

Heuermann er nú í fangelsi í Suffolk–sýslu og býður réttarhalda.
Heuermann er nú í fangelsi í Suffolk–sýslu og býður réttarhalda. AFP

Bjuggu í húsinu í þrjá áratugi 

Húsið er æskuheimili Heuermanns og bjó Ása með honum þar síðustu þrjá áratugi.

Frá heimilinu fór Heuermann á skrifstofu sína á Manhattan þar sem hann starfaði sem arkitekt.

Að sögn saksóknara hitti hann svo vændiskonur nokkur örlagarík kvöld, myrti þær og skildi lík þeirra eftir á Gilgo–strönd og víðar.

Í kjallara hússins er Heuermann sagður hafa geymt vopn og „skipulagsskjal“ fyrir morðin. 

Er Heuermann var handtekinn í júlí árið 2023 bjuggu Ása og börn hennar áfram í húsinu, jafnvel eftir að lögregla sneri öllu á hvolf og lagði hald á umfangsmikið magn af sönnunargögnum.

Ása skrifaði und­ir samn­ing við fram­leiðslu­fyr­ir­tækið Peacock/​NBC um gerð heim­ild­ar­mynd­ar um líf þeirra fyrir ári síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert