Dæmdur fyrir að koma sér hjá herskyldu með ofáti

Maðurinn tvöfaldaði matarskammta sína.
Maðurinn tvöfaldaði matarskammta sína. Ljósmynd/Colourbox

Karlmaður í Suður-Kóreu hefur verið fundinn sekur um að borða markvisst of mikið til að þyngja sig og komast þannig undan herskyldu. BBC greinir frá.

Maðurinn, sem er 26 ára, fór að stunda ofát nokkru áður en hann átti að fara í líkamsskoðun þar sem meta átti líkamlegt ástand hans fyrir herþjónustu. 

Í skoðuninni var hann talinn of feitur til að sinna herþjónustu og gat í staðinn fengið að taka herskylduna út í skrifstofustarfi hjá einhverri opinberri stofnun.

Maðurinn hafði verið metinn hæfur til að sinna herþjónustu í fyrstu skoðun, en í lokaskoðun var hann orðinn 102 kíló.

Vinurinn fékk einnig dóm

Maðurinn fékk eins árs skilorðsbundinn fangelsisdóm. Vinur hans sem gaf honum góð ráð um hvernig hann gæti tvöfaldað hjá sér daglega matarskammta, fékk sex mánaða skilorðsbundinn dóm.

Herskylda er í Suður-Kóreu og verða allir karlmenn 18 ára og eldri að gegna herþjónustu í að minnsta kosti 18 mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert