Búddískt munkaklaustur í Taílandi er til rannsóknar eftir að 41 lík fundust í klaustrinu í dag. Líkin voru notuð til hugleiðslu.
Líkin fundust í Pa Nakhon Chaibovorn–klaustrinu í Phichit–héraði.
„Líkunum fylgdu dánar- og líffæragjafavottorð,“ sagði lögreglufulltrúi við AFP–fréttaveituna.
Verið er að hafa samband við aðstandendur hinna látnu til að fá staðfest að líkin hafi verið gefin klaustrinu af fúsum og frjálsum vilja.
„Við erum að reyna að ganga úr skugga um að engu líki var stolið.“
Líkfundurinn kemur í kjölfar þess að 12 lík fundust í öðru klaustri í nágrannahéraði á miðvikudag.
Forsvarsmaður klaustursins í Phichit–héraði, Phra Ajarn Saifon Phandito, sagði taílenskum miðlum að líkin hefðu verið hluti af „hugleiðslutækni“ sem hann þróaði.
„Ég veit ekki hversu margir hafa tileinkað sér tæknina mína.“
Þá sagði hann að iðkendur hugleiddu á meðal líkkista sem líkin væru í.
Lögregla rannsakar nú hversu útbreidd þessi hugleiðslutækni er.