„Anders Behring Breivik sótti um reynslulausn öðru sinni 10. júní 2023 og það er sú umsókn sem héraðsdómur hefur haft til meðhöndlunar þessa vikuna,“ segir Hulda Olsen Karlsdóttir, héraðssaksóknari í Ósló, í samtali við mbl.is um aðra tilraun norska fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks til að öðlast frelsi. Hulda flytur mál norska ríkisins gegn Breivik og hyggst hafa umsókn hans að engu.
Breivik geldur nú háa skuld sína við guð og menn í fangelsinu í Ringerike í austurhluta Buskerud-fylkis, norðvestur af Ósló. Reynslulausnarmál hans er því flutt fyrir Héraðsdómi Ringerike, Asker og Bærum.
Ekki eru ýkjur að segja að sakborningurinn, ef til vill hataðasti maður frá því Norðmenn muna sína tilveru, sitji af sér þyngstu sekt í sögu landsins, því annað eins brot þekkir norsk þjóðarsál varla síðan landráðamaðurinn og varnarmálaráðherrann Vidkun Abraham Lauritz Jonssøn Quisling gerðist helsti bandamaður Adolfs Hitlers í Noregi við innrás Þjóðverja hinn örlagaríka dag 9. apríl 1940.
Norsk þjóð fyrirgaf Quisling aldrei landráð hans. Ráðherra Hitlers var talinn langan veg handan fyrirgefningar eða betrunar, enda fékk hann ekki að sitja af sér eitt eða neitt eins og Breivik nú. Í síðustu löglegu aftöku á vegum norska ríkisins, 24. október 1945, var Quisling stillt upp fyrir framan aftökusveit við múra Akershus-virkisins í hjarta Óslóar sem blasir við frá fjölda veitingastaða á hinni fjölsóttu Aker-bryggju.
Stundvíslega klukkan 02:40 aðfaranótt þess dags hæfðu allar kúlur aftökusveitarinnar hvíta pappírsörk sem fest hafði verið honum í hjartastað sem skotmark áður en formaður sveitarinnar gekk að Quisling þar sem hann lá örendur og skaut hann náðarskotinu táknræna í höfuðið með skammbyssu. Norsk þjóð var endanlega laus við mann sem eldri Norðmenn minnast enn með hatri og óbeit.
Lesendum til upprifjunar hlaut Breivik á sínum tíma 21 árs dóm undir norska réttarfarsúrræðinu forvaring með tíu ára lágmarkstíma. Eins og mbl.is hefur fjallað um áður leysti forvaring, sem táknar bókstaflega varðveislu, ævilangt fangelsi af hólmi þegar sú refsing vék í fjölda Evrópulanda fyrir mannréttindastraumum sem fylgdu meðal annars samþykkt mannréttindasáttmála Evrópu á sínum tíma.
Eitthvert úrræði þurfti þó að lögspekinga yfirsýn til að læsa svo háskalega stórglæpamenn inni að samfélagið vill helst aldrei sjá þá meðal fólks á ný. Af því sprettur forvaring sem táknar í raun að þótt dæmdi hafi setið inni 21 ár eða afplánað lengur en lágmarkstíminn segir til um – sá tími sem hann skal sitja hið minnsta – er dómara heimilt, án þess að ný ákæra sé gefin út, enda mæli geðfróðir menn með, að framlengja refsivist sakamanns um nokkurra ára tímabil í einu sem jafnvel getur varað alla ævi hins brotlega.
Hulda héraðssaksóknari, íslensk kona úr Hafnarfirði sem hefur rætt Breivik og mál hans áður við Morgunblaðið og mbl.is, segir öryggismál kveikjuna að því að öðru sinni fari dómþingið fram í fangelsinu sjálfu, í íþróttasalnum þar. Ekki sé óhætt að flytja Breivik út af stofnuninni. Hér má lesa viðtal Morgunblaðsins við Huldu frá 3. febrúar 2022.
„Eins og 2022 [þegar Breivik sótti hið fyrra sinni að norska ríkinu um reynslulausn] liggur sú spurning nú fyrir réttinum hvort einhverjar þær breytingar hafi átt sér stað, síðan dómurinn féll árið 2012, sem gefi okkur til kynna að nú sé síður líklegt að Breivik muni á ný fremja alvarleg ofbeldisbrot,“ útskýrir Hulda.
Þjóðarathygli vakti í Noregi þegar fjölmiðlar sýndu myndskeið af því er Breivik og Hulda tókust í hendur við upphaf aðalmeðferðar og fanginn hafði rakað bókstafinn „Z“ í stuttklippt hár sitt beggja vegna höfuðs, tákn sem að sögn Lars Helle, stjórnmálaskýranda norska dagblaðsins Dagbladet, sýndi að norski fjöldamorðinginn styddi innrás Rússa í Úkraínu. Við grípum niður í viðtali Dagbladet við Helle:
„Já, hann hefur rakað bókstafinn Z á höfuð sér og það tengist líka því sem kom frá plakatinu sem hann sýndi við réttarhöldin,“ segir Helle og vísar til plaggs sem Breivik bar og sást í útsendingu norskra fjölmiðla frá réttarhöldunum.
„Fljótlega eftir innrás Rússa í Úkraínu 2022 tók að bera á bókstafnum Z hjá þeim sem studdu innrásina og það sem [Breivik] reynir að koma á framfæri með þessari undarlegu klippingu er sá stuðningur,“ segir Helle.
Aðspurður segir hann áróður Breiviks tengjast þeim ímyndunarheimi (n. fantasiverden) sem fjöldamorðinginn lifi í. „Ég myndi nú bara kalla þetta rugl en þetta tengist engu að síður stóratburðum sem við upplifum nú í heiminum, ekki síst í tengslum við stríðið í Úkraínu,“ segir Helle og við gefum Huldu saksóknara orðið á ný.
„Breivik hefur árum saman haldið því fram að hann heyi sína pólitísku baráttu, en að hann sé þó ekki lengur hermaður hennar [n. militant],“ segir Hulda en viðtalið fer fram á norsku. Saksóknari hefur alið nánast allan sinn aldur í Noregi. „Því hefur hann líka haldið fram núna í vikunni sem leið fyrir dómi – hann hefur lofað því að hann muni eingöngu nota friðsamlegar boðskiptaaðferðir verði hann látinn laus til reynslu,“ segir Hulda.
Þetta segir hún saksóknaraembættið ekki telja nægilegt. „Samfélagið getur ekki treyst loforðum hans. Við metum stöðuna þannig að ekkert sem nöfnum tjáir að nefna hafi breyst hjá honum, líkurnar á því að hann láti aftur til skarar skríða eru jafn miklar nú og [við réttarhöldin] 2012,“ segir Hulda.
Áfram heldur héraðssaksóknarinn íslenski og segir mat á hugarástandi Breiviks einfaldlega gefa það til kynna að hann standi við sína hugmyndafræði og skoðanir. „Hegðun hans ber enn þá vott um frávik og þegar við leggjum þetta saman er enn stórhætta á því að hann grípi til ofbeldis á ný,“ segir Hulda.
Hún útskýrir það áhættumat sem ákæruvaldið styðst við í málinu. Áhættumat sérfræðinga á sviði geðlæknisfræði. „Það sem vegur þyngst þar – og þetta er byggt á nýjum upplýsingum – eru þau áhrif sem Breivik getur haft á aðra,“ segir Hulda og notar norska orðið „radikalisering“, það sama sem haft er um það þegar íslamskir öfgamenn sannfæra ungt eða annað áhrifagjarnt fólk um að snúast á sveif með þeim.
Að fengnum þessum niðurstöðum hafi sérfræðingarnir mælt með því við refsivörslukerfið að það líti fyrst og fremst til þessara mögulegu áhrifa Breiviks.
„Ákæruvaldið er á einu máli um það að við tökum þetta ekki til greina. Við reiknum með dómi í málinu fyrstu vikuna í desember,“ segir Hulda Olsen Karlsdóttir, héraðssaksóknari í Ósló, að lokum í samtali við mbl.is um aðra tilraun Anders Behrings Breiviks fjöldamorðingja til að hljóta reynslulausn.
Dagbladet (Hammerfest vill ekki sjá Breivik)
VG (Hulda: „Enginn í Noregi hefur brotið eins hrottalega af sér“)
Nettavisen (verjandinn segir sálfræðing vanhæfan vegna nýs kærasta)