„Seljið þið bíla?“

Jaguar XK150DHC, árgerð 1960 á gráum en hrífandi sumardegi. Bílaframleiðandinn …
Jaguar XK150DHC, árgerð 1960 á gráum en hrífandi sumardegi. Bílaframleiðandinn á sér 102 ára sögu. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Breski bílaframleiðandinn Jaguar hefur svarað fyrir gagnrýni sem framleiðandinn hefur hlotið fyrir auglýsingu sem boðar umbreytingu fyrirtækisins.

Auglýsingin virðist gefa lítið fyrir 102 ára sögu Jaguar og kynnir til leiks nýtt vörumerki framleiðandans áður en fyrirtækið segir skilið við framleiðslu jarðefnaeldsneytisbíla í þágu rafbíla í desember.

„Seljið þið bíla?“ spurði Elon Musk, efnaðasti maður veraldar, á samfélagsmiðli sínum X, en bílar koma ekki við sögu í auglýsingunni.

Hefur allavega vakið athygli 

Auglýsingin hefur allavega vakið athygli, þó að mestu neikvæða. Auglýsingin hefur verið sögð „woke“ en sjá má fjölda manna í auglýsingunni klædda framúrstefnulegum og litríkum klæðum. 

Sem fyrr segir koma bílar ekki við sögu í auglýsingunni og er endurhönnun vörumerkisins sögð vera of nútímaleg og innihaldslaus og að hún gefi lítið fyrir 102 ára sögu fyrirtækisins. 

Talsmaður Jaguar sem BBC ræddi við sagði fyrirtækið hafa verið að reyna eitthvað nýtt til þess að vekja athygli á sér. 

Hermdu eftir engu 

Slagorð auglýsingarinnar „Hermdu eftir engu“ hefur einnig vakið undrun á samfélagsmiðlum, en margir segja auglýsinguna einmitt svipa til stefnu og strauma í auglýsingum síðusta áratug.

Sala Jaguar-bíla hefur þó dalað með árunum og er bílaframleiðandinn veikasti hlekkur Jaguar Land Rover samsteypunnar sem er í eigu indversku samsteypunnar, Tata Motors.  

„Já, við myndum endilega vilja sýna þér. Komdu í tebolla til okkar í Miami 2. desember. Bestu kveðjur, Jaguar,“ svaraði bílaframleiðandi Musk á X. 

Bílaframleiðandinn virðist ætla að beita fyrir sér skopskyninu til að svara fyrir gagnrýni á auglýsingunni ef marka má svör framleiðandans við ósættisröddum á X. 

Skilaboðin glötuðust í þröngsýnisbáli

Framkvæmdastjóri Jaguar, Rawdon Glover, sagði í viðtali við Financial Times að skilaboð auglýsingarinnar hafi ekki verið „woke“. 

Hann segir skilaboð hennar hafa glatast í „þröngsýnisbáli“.

„Við þurfum að koma okkur á framfæri að nýju og á gjörólíku verðbili, þannig við þurfum að haga okkur öðruvísi. Við vildum fjarlægjast hefbundnar bílaklisjur.“

„Ef við högum okkur eins og allir aðrir þá týnumst við í fjöldanum,“ sagði Glover. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert